[sam_zone id=1]

Zaksa sannfærandi í A-riðli

Meistaradeild karla hélt áfram í vikunni þegar síðustu leikirnir fóru fram í A-riðli.

Fyrir áramót léku liðin í Meistaradeildinni þrjá af sex leikjum sínum í riðlakeppninni og í þessari viku var komið að því að klára keppni í A-riðli með seinni þremur leikjunum. Pólsku liðin Zaksa og Skra Belchatow voru töluvert sterkari en andstæðingarnir í Lindemans Aalst og Fenerbahce fyrir áramót og ekki var búist við mikilli breytingu á því. Zaksa hefur verið á miklu skriði þetta tímabilið og hefur unnið alla leiki sína á tímabilinu. Þeir hafa ekki tapað leik síðan þeir féllu úr keppni í Meistaradeildinni á síðasta tímabili og því ekki við öðru að búast en að þeir myndu vinna alla leiki sína þessa vikuna.

Leikur Zaksa gegn Belchatow var fyrirfram sá mest spennandi í riðlinum og var viðureignin æsispennandi. Liðin skiptust á að vinna í fyrstu fjórum hrinum leiksins og úrslitin réðust í oddahrinu. Zaksa vann að lokum 15-10 í oddahrinunni og þar með heldur þessi ótrúlega sigurhrina þeirra áfram. Fenerbahce vann þægilegan sigur á Aalst í baráttu “litlu liðanna” í riðlinum.

Síðustu fjórir leikir riðilsins buðu ekki upp á mikla spennu þar sem að Zaksa og Belchatow unnu örugga sigra gegn Fenerbahce og Aalst. Zaksa vann alla sex leiki sína í riðlinum og kemst því beint í 8-liða úrslit keppninnar. Þau lið sem enda í efstu sætum riðlanna fimm fara beint í 8-liða úrslitin en þrjú af fimm liðum í 2. sæti fylgja þeim þangað. Því er enn möguleiki á að Belchatow komist í 8-liða úrslitin.

Ótrúleg sigurhrina Zaksa heldur nú áfram en þeir hafa unnið alla leiki tímabilsins í öllum keppnum. Liðið hefur nú unnið 27 mótsleiki í röð en síðasta tap liðsins kom Kuzbass Kemerovo í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili, rétt áður en Covid-19 varð til þess að allar keppnir voru stöðvaðar. Það verður því fróðlegt að sjá hverjir mótherjar þeirra verða í útsláttarkeppninni og hvort eitthvað lið fái þá stöðvað.

Aðrir riðlar klárast dagana 9.-11. febrúar og því verður orðið ljóst þann 11. febrúar hvaða lið komast áfram í 8-liða úrslitin og stuttu síðar verður dregið um það hverjir mætast þar. Eins og áður verða leikir Meistaradeildarinnar sýndir á EuroVolley.tv sem sýnir alla leikina í beinni útsendingu.

Fyrir áramót urðu lið Arkas Izmir og Jastrzebski Wegiel að gefa fyrri þrjá leiki sína vegna smita innan hópa sinna en eins og er munu öll lið mæta til leiks nú þegar seinni hluti riðlanna mun fara fram. Jastrzebski hefur gert góða hluti í Póllandi og þeir gætu því gert mikinn usla í C-riðli og líklega fer aðeins liðið í 1. sæti áfram í 8-liða úrslitin. Arkas Izmir eiga hins vegar ekki mikla möguleika í B-riðli gegn ítölsku risunum Lube og Perugia.

Úrslit vikunnar

Lindemans Aalst 0-3 Fenerbahce Istanbul (14-25, 19-25, 19-25). Matej Smidl var stigahæstur í liði Aalst með 11 stig en hjá Fenerbahce var Salvador Hidalgo Oliva stigahæstur með 15 stig.

Skra Belchatow 2-3 Zaksa Kedzierzyn-Kozle (23-25, 25-21, 20-25, 25-19, 10-15). Taylor Sander og Mateusz Bieniek voru stigahæstir hjá Belchatow með 16 stig hvor og Milad Ebadipour bætti við 15 stigum. Lukasz Kaczmarek var stigahæstur allra en hann skoraði 21 stig fyrir Zaksa. Aleksander Sliwka kom næstur með 14 stig.

Aalst 1-3 Belchatow (25-17, 20-25, 18-25, 20-25). Jeroen Oprins skoraði 14 stig fyrir Aalst og Wout D’heer bætti við 13 stigum. Dusan Petkovic var stigahæstur hjá Belchatow með 16 stig en næstur kom Milad Ebadipour með 15 stig.

Fenerbahce 0-3 Zaksa (23-25, 18-25, 18-25). Salvador Hidalgo Oliva var langstigahæstur hjá Fenerbahce með 10 stig en í liði Zaksa var Kamil Semeniuk stigahæstur með 13 stig og Aleksander Sliwka bætti við 11 stigum.

Fenerbahce 1-3 Belchatow (25-22, 20-25, 18-25, 20-25). Enn var Salvador Hidalgo Oliva stigahæstur hjá Fenerbahce en hann skoraði 19 stig. Næstur kom Metin Toy með 17 stig. Taylor Sander var öflugur í liði Belchatow og skoraði 23 stig en Dusan Petkovic skoraði 19 stig.

Zaksa 3-1 Aalst (21-25, 25-16, 25-15, 25-19). Kamil Semeniuk skoraði 19 stig fyrir Zaksa en þeir Lukasz Kaczmarek og Aleksander Sliwka skoruðu 14 stig hvor. Jakub Rybicki var stigahæstur hjá Aalst með 13 stig og Twan Wiltenburg bætti við 11 stigum.

Mynd fengin af heimasíðu CEV.