[sam_zone id=1]

Zaksa og Trentino með yfirhöndina

Undanúrslitin í Meistaradeild karla fóru af stað í gær og var spennan afar mikil í Rússlandi.

Fyrri leikur dagsins fór fram í Kazan í Rússlandi þar sem Zenit tók á móti Zaksa frá Póllandi. Bæði lið hafa leikið vel þetta tímabilið en þá sérstaklega í Meistaradeildinni. Zenit fór mun betur af stað í leiknum og var óvænt komið 2-0 yfir með því að vinna fyrstu tvær hrinurnar báðar 25-22. Þriðja hrinan var gífurlega jöfn og náði Zaksa að kreista fram 27-29 sigur til að halda lífi í leiknum. Zaksa tryggði sér svo oddahrinu þar sem liðið vann 14-16 og fullkomnaði endurkomuna. Zaksa hefur því yfirhöndina fyrir næsta leik sem fram fer á þeirra heimavelli í Póllandi.

Ítalski slagurinn í Trento var sömuleiðis spennandi en heimamenn í Trentino voru þó sterkari aðilinn allan tímann. Þeir héldu Wilfredo Leon í skefjum og skoraði hann einungis 7 stig í leiknum. Fyrsta hrinan var nokkuð jöfn en Trentino vann þó sannfærandi, 25-21. Heimamenn völtuðu svo yfir Perugia í annarri hrinu og tryggði 3-0 sigurinn með því að vinna þriðju hrinu með minnsta mun, 25-23. Perugia var í sömu stöðu í 8-liða úrslitunum þegar liðið tapaði 3-0 fyrir Modena í fyrri leiknum og verður spennandi að sjá hvort þeir nái að snúa þessu einvígi við.

Seinni leikir þessara liða fara fram næsta miðvikudag, þann 24. mars. Leikur Zaksa og Kazan hefst klukkan 17:00 og leikur Perugia og Trentino hefst klukkan 19:30. Líkt og áður verða leikirnir sýndir á Eurovolley.tv, auk þess sem CEV mun líklega sýna frá öðrum leiknum á YouTube síðu sinni.

Úrslit gærdagsins

Zenit Kazan 2-3 Zaksa (25-22, 25-22, 27-29, 22-25, 14-16). Maxim Mikhailov skoraði 23 stig fyrir Kazan og Earvin Ngapeth kom næstur með 17 stig. Kamil Semeniuk var stigahæstur hjá Zaksa með 26 stig og Lukasz Kaczmarek skoraði 22 stig.

Trentino 3-0 Perugia (25-21, 25-16, 25-23). Nimir Abdel-Aziz var stigahæstur hjá Trentino með 16 stig og Marko Podrascanin bætti við 11 stigum. Thijs Ter Horst skoraði 12 stig fyrir Perugia en næstir komu Wilfredo Leon og Sebastian Sole með 7 stig hvor.