[sam_zone id=1]

Zaksa og Trentino í úrslit

Undanúrslitum Meistaradeildar karla lauk í gærkvöldi en báðir leikir gærdagsins fóru alla leið í oddahrinu.

Zaksa Kedzierzyn-Kozle frá Póllandi og Itas Trentino frá Ítalíu munu mætast í úrslitaleik Meistaradeildar karla þetta árið en þau höfðu betur í undanúrslitunum þar sem keppni lauk í gær. Úrslitaleikir karla og kvenna fara fram í Verona á Ítalíu þann 1. maí.

Zaksa – Zenit Kazan

Lið Zaksa frá Póllandi vann 2-3 sigur í fyrri leik sínum gegn Zenit Kazan og í gær mættust liðin aftur, nú á heimavelli Zaksa. Það var hins vegar Kazan sem byrjaði mun betur í leik gærdagsins og unnu Rússarnir 17-25 sigur fyrstu hrinunni. Zaksa sneri dæminu við og vann næstu tvær hrinur nokkuð sannfærandi og gat tryggt sér sæti í úrslitunum með 3-1 sigri. Fjórða hrinan virtist aldrei ætla að enda og lauk henni með 28-30 sigri Kazan sem var því enn á lífi.

Pawel Zatorski stýrir móttökunni hjá Zaksa. Aleksander Sliwka og Jakub Kochanowski fylgjast með.

Nú þurfti Kazan að vinna oddahrinuna til að jafna viðureignina og fara alla leið í gullhrinu. Það gerðu þeir eftir aðra æsispennandi hrinu þar sem Kazan vann 18-20. Það kom því ekki mikið á óvart að gullhrinan hafi einnig verið jöfn og spennandi en það voru heimamenn í Zaksa sem þraukuðu og unnu 15-13. Zaksa fer því í úrslitaleikinn en Zenit Kazan situr eftir með sárt ennið.

Perugia – Trentino

Í Perugia mættust lið Perugia og Trentino öðru sinni í hinum undanúrslitaleiknum en Trentino vann sinn heimaleik örugglega, 3-0. Trentino þurfti því einungis að vinna tvær hrinur til að vinna einvígið. Perugia var mun sterkari aðilinn framan af leik gærdagsins og unnu tvær fyrstu hrinurnar sannfærandi. Í þriðju hrinunni fjölgaði mistökum Perugia og gestirnir tóku fram úr undir lokin. Trentino náði að vinna hrinuna 23-25 og því var fjórða hrinan algjör úrslitahrina í leiknum.

Alessandro Michieletto og Srecko Lisinac hjá Trentino fara illa með Thijs Ter Horst.

Þar var aldrei spurning um hvort liðið hefði betur en Trentino valtaði yfir heimamenn. Enn fleiri mistök Perugia gerðu liðinu erfitt fyrir og Trentino nýtti sér það til fulls. Trentino vann hrinuna 17-25 og hafði þar með tryggt sér sætið í úrslitunum. Liðin gerðu bæði breytingar fyrir oddahrinuna, sem skipti þau engu máli, og vann Perugia 15-6 sigur í henni.

Úrslit gærdagsins

Zaksa 2-3 Zenit Kazan (17-25, 25-16, 25-21, 28-30, 18-20 – Gullhrina: 15-13). Lukasz Kaczmarek og Kamil Semeniuk skoruðu 21 stig hvor fyrir Zaksa en næstur kom Aleksander Sliwka með 17 stig. Hjá Zenit Kazan var Maxim Mikhailov stigahæstur með 27 stig og Earvin N’Gapeth skoraði 22 stig.

Perugia 3-2 Trentino (25-22, 25-17, 23-25, 17-25, 15-6). Wilfredo Leon var stigahæstur í liði Perugia með 21 stig en næstur kom Thijs Ter Horst með 15 stig. Hjá Trentino var Nimir Abdel-Aziz stigahæstur með 17 stig og Ricardo Lucarelli skoraði 11 stig.