[sam_zone id=1]

Völsungur stóð í KA en minni spenna karlameginn

Þrír leikir fóru fram í úrvalsdeildum karla og kvenna í gær. Tveir leikir fóru fram karlameginn og einn kvennameginn.

Kvennameginn var það Norðurlandsslagur þar sem Völsungur tók á móti KA, en gengi þessara liða hafði verið misjafnt fram að þessum leik. KA hafði unnið alla sína leiki á meðan Völsungur var enþá í leit að sínum fyrsta sigri.
Leikurinn í gær var þó mun meira spennandi en búist var við og voru Völsungur að spila flott blak. KA höfðu þó yfirhöndina í fyrstu hrinu og unnu hana 25-19. Önnur hrinan var stórskemmtileg og ljóst að bæði lið ætluðu sér mikið, hrinan var æsispennandi allt frá upphafi til enda og réðust úrslitin með minnsta mun þar sem Völsungur unnu sína fyrstu hrinu í vetur með 25-23 sigri.
Eftir þetta gáfu KA stúlkur aftur aðeins í og unnu þær næstu tvær hrinur 25-19 og 25-16 og leikinn þar með 3-1.

KA eru sem fyrr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga en Völsungur eru enn á botninum án stiga. Næstu leikir þessara liða verða áhugaverðir en um helgina fær KA Aftureldingu í heimsókn í alvöru toppslag á meðan Völsungur fer í höfuðborgina og mætir Þrótti R. í tveimur leikjum en bæði lið eiga enn eftir að vinna leik í vetur.

Karlameginn voru tveir leikir á dagskrá en þar mættust Afturelding og Þróttur V og síðan tók Hamar á móti Fylki í Hveragerði.

Báðir leikirnir voru svipaðir en Hamar og Afturelding höfðu nokkra yfirburði í leikjum sínum. Fylkir og Þróttur V. sýndu þó góða baráttu inn á milli en Fylkir var nálægt sigri í annari hrinu sem endaði 25-23 Hamri í vil á meðan Þróttur V. tapaði þriðju hrinunni naumlega einnig 25-23.
Það fór þó svo að lokum að Hamar vann Fylki 3-0 og Afturelding sigraði Þrótt V. 3-0.

Staða liðanna breytist lítið en Hamar styrkir stöðu sína á toppnum á meðan Afturelding er búið að koma sér vel fyrir í þriðja sæti deildarinnar. Fylkir og Þróttur V. eru enn í tveimur neðstu sætunum og er bilið upp í næstu lið orðið nokkuð mikið núna.