[sam_zone id=1]

Völsungur meistari eftir öruggan sigur

Keppni í 1. deild kvenna lauk í dag með seinni leik Völsungs og BF sem mættust í úrslitaeinvígi.

Völsungur varð deildarmeistari í lok apríl en liðið vann 8 af 9 leikjum sínum í 1. deildinni þetta tímabilið. Liðið mætti Ými í undanúrslitum úrslitakeppninnar og vann tvo sannfærandi sigra. BF lauk keppni í 5. sæti deildarinnar en þau B lið sem leika í deildinni tóku ekki þátt í úrslitakeppninni. BF mætti liði Fylkis og vann þar 1-3 og 3-0 sigra til að tryggja sig áfram í úrslitin.

Leikur 1 – Húsavík

Fyrsti leikur Völsungs og BF fór fram mánudaginn 10. maí á Húsavík en vinna þarf tvo leiki til að verða meistari. Völsungur byrjaði afar vel á heimavelli og leiddu frá upphafi fyrstu hrinu. Hana unnu heimakonur 25-22 en BF kom til baka og vann þá næstu nokkuð sannfærandi, 19-25. Jafnræði var með liðunum í þriðju hrinu en líkt og í annarri hrinunni voru BF mun sterkari undir lokin og unnu nú 22-25 sem gaf þeim 1-2 forystu í leiknum.

BF virtist ætla að valta yfir Völsung í fjórðu hrinunni og leiddi 0-6 en eftir það var Völsungar mun betra liðið. Völsungur sneri hrinunni við, vann 25-18 og fór svo með auðveldan 15-7 sigur í oddahrinunni. Völsungur vann leikinn því 3-2 og leiddi einvígi liðanna 1-0.

Leikur 2 – Siglufjörður

Annar leikur liðanna fór fram á Siglufirði í dag og það var strax ljóst að Völsungur ætlaði sér að klára dæmið. Gestirnir frá Húsavík áttu ótrúlegan kafla í upphafi leiks og náðu 0-14 forystu í fyrstu hrinu. BF lagaði stöðuna örlítið þegar leið á hrinuna en Völsungur vann auðveldlega, 10-25. BF náði að hanga betur í Völsungi í annarri hrinu en engu að síður vann Völsungur sannfærandi, 20-25, og leiddi 0-2 í leiknum.

Nokkuð jafnara var í þriðju hrinunni en Völsungur var skrefinu á undan. Það var svo um miðja hrinuna sem Völsungur stakk af og náði mest 9 stiga forystu áður en BF minnkaði muninn lítillega. Völsungur átti ekki í vandræðum með eftirleikinn og vann hrinuna 16-25, og leikinn þar með 0-3. Völsungur tryggði sér því annan sigurinn í úrslitunum og er Íslandsmeistari í 1. deild kvenna árið 2021. Frábær árangur hjá ungu liði Völsungs sem hlýtur að horfa til Mizunodeildarinnar fyrir næsta tímabil.