[sam_zone id=1]

Vestri vann í Vogabæjarhöllinni

Þróttur Vogum og Vestri mættust í Mizunodeild karla í kvöld en þetta var eini leikur dagsins í Mizunodeildunum.

Þróttur Vogum sat fyrir leik sem fastast á botni deildarinnar og átti enn eftir að vinna hrinu í efstu deild. Vestri var hins vegar í 6. sæti deildarinnar og hafði unnið tvo leiki en tapað tveimur. Piotr Kempisty, spilandi þjálfari Þróttar, var kominn aftur í liðið hjá heimamönnum eftir að hafa misst af síðasta leik vegna meiðsla. Vestri mætti til leiks með þunnskipað lið og var án frelsingja. Það kom þó ekki að sök þar sem að Vestri vann sannfærandi sigur.

Fyrsta hrina leiksins var jöfn og spennandi en Þróttur Vogum hafði forystuna framan af. Þróttur leiddi 20-17 undir lokin en Vestri skoraði þá 5 stig í röð og tók forystuna. Vestri vann nauman sigur, 23-25, og leiddi 0-1. Önnur hrinan var töluvert þægilegri fyrir Vestra sem byggði fljótt upp forskot og leiddi alla hrinuna. Vestri vann aðra hrinuna 18-25 og virtist hafa góð tök á leiknum.

Heimamenn svöruðu fyrir sig í þriðju hrinunni og byrjuðu af krafti. Þeir komust 4-1 yfir og höfðu naumt forskot allt þangað til um miðja hrinu. Lið Vestra seig smám saman fram úr og þeir unnu þriðju hrinuna að lokum 18-25. Þeir unnu leikinn þar með 0-3 og fengu öll þrjú stigin.

Vestri hefur nú unnið þrjá af fimm leikjum sínum og er með 9 stig í 5. sæti deildarinnar. Þróttarar úr Vogum eru enn stigalausir á botninum. Næsti leikur Þróttar verður heimaleikur gegn Álftanesi þann 17. febrúar en Vestri mætir Hamri strax á sunnudag. Síðast þegar Hamar og Vestri mættust varð leikurinn nokkuð spennandi og því áhugavert að sjá hvort Ísfirðingar nái að stríða toppliðinu.