[sam_zone id=1]

Vestri vann í Mosfellsbæ

Mizunodeild karla fór aftur af stað í kvöld eftir bikarveisluna um síðustu helgi og fóru tveir leikir fram.

Afturelding – Vestri

Lið Aftureldingar, sem vann til silfurverðlauna í Kjörísbikarnum, mætti Vestra í fyrri leik kvöldsins og fór leikurinn fram að Varmá í Mosfellsbæ. Vestri fór vel af stað og leiddi 3-7 en Afturelding skoraði þá 7 stig í röð og varð hrinan jöfn og spennandi. Afturelding náði annarri góðri skorpu undir lok hrinunnar þar sem liðið skoraði 5 stig í röð og gerði það að verkum að Afturelding vann nokkuð öruggan 25-21 sigur.

Aftur var jafnræði með liðunum í annarri hrinunni en nú voru gestirnir skrefinu á undan. Munurinn var aldrei mikill en í stöðunni 20-21 fór allt í baklás hjá heimamönnum. Vestri skoraði síðustu 4 stig hrinunnar og vann hana 21-25. Þeir jöfnuðu leikinn því 1-1. Þeir héldu áfram að gera vel í upphafi þriðju hrinunnar en fljótlega tók Afturelding stjórnina. Þeir skoruðu grimmt um miðja hrinu og unnu auðveldan 25-16 sigur.

Afturelding byrjaði nokkuð vel í fjórðu hrinu en um miðja hrinu gekk ekkert upp hjá heimamönnum. Vestri lék hins vegar vel og gerði fá mistök sem leiddi til þægilegrar forystu gestanna. Ekki skánaði spil Aftureldingar undir lokin og Vestri valtaði gjörsamlega yfir þá. Vestri vann hrinuna 25-16 og fór leikurinn því í oddahrinu. Þar var hnífjafnt framan af en eftir tilfinningaþrunginn lokakafla vann Vestri 12-15 og tryggði sér 2-3 sigur. Afturelding missti Nicolas Toselli út vegna meiðsla í fjórðu hrinu leiksins og nýtti Vestri sér fjarveru hans til hins ítrasta.

Mason Casner var stigahæstur hjá Aftureldingu með 17 stig en næstur kom Nicolas Toselli með 16 stig. Hjá Vestra var Felix Arturo Vazques Aguilar stigahæstur með 16 stig og Juan Manuel Escalona Rojas bætti við 13 stigum.

Eftir sigurinn er Vestri með 11 stig eftir 8 leiki en Afturelding er með 18 stig eftir 10 leiki, 7 stigum á eftir liði KA sem er í þriðja sætinu. Vestri á annan leik þessa helgina en Ísfirðingar mæta Álftanesi á sunnudag. Þá mætast Þróttur Fjarðabyggð og Hamar einnig á sunnudag, sem og Fylkir og HK. Afturelding leikur næst þann 31. mars þegar liðið fær Þrótt Fjarðabyggð í heimsókn.

KA – Þróttur Vogum

Á Akureyri mætti KA liði Þróttar Vogum og lék lið KA án þeirra Miguel Mateo Castrillo og André Collins Dos Santos. Liðið var þó mun sigurstranglegra en gestaliðið en Þróttur Vogum hefur enn ekki náði í stig í Mizunodeildinni. KA fór létt með gestina í fyrstu hrinu og fór Gísli Marteinn Baldvinsson mikinn í fjarveru Mateo. Gísli skoraði 9 stig í fyrstu hrinunni og KA vann 25-18. Ekki átti KA í miklum vandræðum í annarri hrinu heldur og höfðu þeir þægilegt forskot frá upphafi. Þeir unnu aftur 25-18 og leiddu 2-0.

Þróttarar byrjuðu frábærlega í þriðju hrinunni og leiddi 5-8. KA vaknaði þá til lífsins og skoraði næstu 6 stigin. Þróttur lék af krafti í þriðju hrinunni en gestirnir réðu þó ekki við KA sem vann hrinuna 25-17 og leikinn þar með 3-0. Gísli Marteinn Baldvinsson var stigahæstur hjá KA með 14 stig og Oscar Fernandez Celis skoraði 9 stig. Damian Moszyk var stigahæstur gestanna með 5 stig.

KA er nú með 25 stig eftir 10 leiki en er enn í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir HK. Liðið á þó leik til góða á HK-inga og gæti komist upp í 2. sætið vinni þeir gegn Vestra þann 28. mars. Sá leikur fer fram á Ísafirði. Þróttur Vogum er enn án stiga á botninum en næsti leikur liðsins verður útileikur gegn stórliði Hamars þann 24. mars.