[sam_zone id=1]

Vestri í undanúrslit Kjörísbikarsins

Síðasti leikur 8-liða úrslitanna í Kjörísbikarnum fór fram í dag þegar Fylkir og Vestri mættust karlamegin.

Kvennamegin var nú þegar ljóst hvaða lið myndu mætast í undanúrslitum en Völsungur vann óvæntan sigur gegn Álftanesi og mætir KA í undanúrslitunum. Þá mætast HK og Afturelding í seinni undanúrslitaleiknum. Hjá körlunum voru lið HK, Hamars og Aftureldingar komin í undanúrslitin en Fylkir og Vestri börðust um síðasta lausa sætið í dag.

Vestri gerði mun betur en heimamenn í Árbænum í fyrstu hrinunni og höfðu þægilegt forskot alla hrinuna. Fylkismenn gerðu haug af mistökum og vann Vestri örugglega, 17-25. Önnur hrinan var nokkuð jafnari en undir lokin stungu gestirnir af og unnu nú 19-25. Þar með leiddi Vestri 0-2 og hafði góð tök á Fylkismönnum.

Þriðja hrinan var sú jafnasta þrátt fyrir slæma byrjun heimamanna. Fylkir vann sig aftur inn í leikinn undir lok hrinunnar en allt kom fyrir ekki. Vestri vann 23-25 og tryggði 0-3 sigur. Þar með var lið Vestra það síðasta til að tryggja sér sæti í undanúrslitum karla.

Að leik loknum var dregið í viðureignir undanúrslitanna hjá körlunum og það voru Hamar og Vestri sem komu upp úr pottinum. Vestri á því afar erfitt verkefni fyrir höndum en Hamar hefur enn ekki tapað leik á tímabilinu. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast HK og Afturelding sem ætti að verða æsispennandi þar sem að síðasti leikur liðanna fór alla leið í oddahrinu.

Lokahelgi Kjörísbikarsins

Föstudagur 12. mars

17:00 Völsungur – KA

20:00 Afturelding – HK

Laugardagur 13. mars

13:00 Hamar – Vestri

16:00 HK – Afturelding

Sunnudagur 14. mars – RÚV

13:00 Úrslitaleikur kvenna

15:30 Úrslitaleikur karla