[sam_zone id=1]

Vestri hafði betur gegn Þrótti Nes í Mizunodeild karla

Vestri og Þróttur Nes mættust í Mizunodeild karla í dag en leikurinn fór fram á Ísafirði. Leikurinn átti að hefjast kl 15:00 en einhver seinkun varð á leiknum sem hófst ekki fyrr en 15:15.

Lið Þróttar var að leika sinn þriðja leik í deildinni og mætti Þróttur með óbreytt byrjunarlið frá síðasta leik þegar liðið sigraði Fylki 3-1. Lið Vestra var hinsvegar að leika sinn fyrsta leik og er liðið töluvert breytt frá síðasta tímabili.

Liðin skiptust á stigum í byrjun fyrstu hrinu en þegar fór að líða á hrinuna voru það heimamenn í Vestra sem náðu yfirhöndinni. Á sama tíma og leikmenn Þróttar eyddu orku í að pirra sig yfir dómgæslunni þá gengu heimamenn á lagið. Þróttarar nörtuðu þó í hælana á heimamönnum en Þróttur tók leikhlé í stöðunni 17-20. Sóknarleikur Þróttar var ekki næginlega góður en of mikið af árangurslausum laumum sem leikmenn Vestra áttu ekki í miklum vandræðum með en varnaleikur Vestra var góður og sóknarleikurinn eftir því. Fór svo að Vestri sigraði fyrstu hrinu 25-22.

Einhvað virtust þessir tæpu 900km sem Þróttur þurfti að ferðast í leikinn, sitja í þeim en frammistaða Þróttar í upphafi leiks var langt frá þeirra besta. Á sama tíma verður það ekki tekið af Vestra að þeir voru að spila glimrandi vel. Vestri hélt áfram góðri spilamennsku í annarri hrinu og var fjölbreyttur og sterkur sóknarleikur Vestra að valda Þrótti vandræðum. Uppspilari Vestra dreyfði spilinu vel og gerði þar hávörn Þróttar erfitt fyrir. Vestri sigraði aðra hrinu 25-20 og tryggði sér þar með að lágmarki eitt stig út úr leiknum.

Gestirnir komu af gífurlegum krafti inní þriðju hrinu en Þróttur var með töluvert forskot megnið af hrinunni. Allt annað var að sjá sóknarleik Þróttar og skilaði það þeim sigri í þriðju hrinu 25-19. Eftir jafna og spennandi byrjun í fjörðu hrinu virtist allt púður búið hjá Þrótti Nes og gengu heimamenn á lagið og gerðu út um leikinn, leikmaður nr 13 hjá Vestra Felix Asturo Vazques Aguilar gekk þá á lagið og réðu Þróttur Nes ekki við öflugar sóknir hans en hann var öflugastur í liði Vestra í leiknum. Fjórðu hrinu lauk með sigri Vestra 25-21. Vestri byrjar því tímabilið á nokkuð óvæntum en verðskulduðum sigri.

(Mynd: Blakdeild Vestra)