[sam_zone id=1]

Úrvalsdeildirnar kláruðust með hörkuleikjum

Úrvalsdeildirnar í blaki eru nú komnar í jólafrí en síðustu leikirnir fóru fram í dag. Það voru þrír leikir í úrvalsdeild kvenna á meðan það var einungis einn leikur í úrvalsdeild karla.

Í úrvalsdeild kvenna áttu toppliðin tvo KA og Afturelding leiki við botnliðin tvö Þrótt R. og Völsung. Það var því búist við nokkuð þægilegum sigrum hjá toppliðunum tveimur.
Afturelding byrjaði mun betur í sínum leik gegn Völsung og unnu fyrstu hrinuna nokkuð þægilega 25-15. Völsungur spiluðu þó betur þegar leið á leikinn og voru næstu tvær hrinur mjög jafnar og skemmtilegar en að lokum voru þó Afturelding sterkari og unnu hrinurnar 25-23 og 25-21 og unnu þar með leikinn 3-0.
Það var öllu minni spenna í Digranesi þar sem Þróttur R. tók á móti KA en KA stúlkur voru með frumkvæðið allan leikinn og áttu Þróttara stelpur fá svör gegn sterkum leik KA liðsins. KA unnu leikinn 3-0 (25-18, 25-14, 25-15) og fara því með þrjú stig með sér aftur til Akureyrar.

Það var öllu meiri spenna á Álftanesi þar sem heimakonur tóku á móti liði HK en þessi lið eru að berjast um miðja deild og gat Álftanes komið sér upp fyrir HK með sigri í leiknum.
HK stúlkur byrjuðu leikinn frábærlega og keyrðu yfir Álftanes í fyrstu hrinu sem endaði 25-12 fyrir HK. Álftanes svaraði þó fyrir sig með sigri í næstu tveimur hrinum 25-18 og 25-22. HK voru því komnar með bakið upp við vegg en aftur snerist leikurinn við þar sem  HK sigraði 4 hrinuna 25-21 og tryggði sér oddahrinu. Oddahrinan var jöfn og skemmtileg þar sem bæði lið ætluðu sér sigur í leiknum, að lokum voru það þó Álftanes sem voru sterkari og unnu góðan 15-11 sigur og tryggðu sér þar með 3-2 sigur í hörkuleik.

Eftir þessa leiki breytist staðan í deildinni lítilega, KA eru enn í efsta sætinu en Afturelding eru þrem stigum á eftir þeim en eiga leik til góða. HK heldur fjórða sætinu þrátt fyrir tap en Álftanes er nú einungis tveim stigum á eftir HK en eiga þrjá leiki til góða.
Völsungur og Þróttur R. eru síðan enþá á botninum með sitthvorn sigurinn.

Í úrvalsdeild karla fór síðan fram einn leikur en þar mættust Fylkir og HK, Fylkir hafa átt erfitt uppdráttar í vetur og einungis unnið einn leik á meðan HK eltir Hamar eins og skugginn á toppi deildarinnar.
Fylkir hafa þó verið að veita liðunum í efri hluta deildarinnar góða leiki og þeir spiluðu vel á móti HK í leiknum í dag. Fyrsta hrina leiksins var hörkuspennandi en HK vann á endanum 25-22 sigur. Þeir fylgdu því eftir í annari hrinu með 25-18 sigri og HK því komnir í góða stöðu í leiknum.
Fylkir voru þó ekki á því að gefast upp og með mikilli baráttu og góðri spilamennsku náðu þeir að sigra þriðju hrinuna 25-23 og allt mögulegt enþá. HK gaf þó í í fjórðu hrinunni og virtist sem bensínið væri búið hjá Fylkisliðinu en HK vann fjórðu hrinuna 25-15 og leikinn þar með 3-1.

Eftir leikinn er HK enn í öðru sætinu þrem stigum á eftir toppliði Hamars en Fylkir eru í sjöunda sæti með 4 stig og orðið frekar langt í næstu lið fyrir ofan.

Deildin er því kominn í jólafrí í bili og hefja lið aftur leik 11. janúar.