[sam_zone id=1]

Úrvalsdeildirnar aftur af stað í kvöld

Úrvalsdeild karla og kvenna fóru aftur af stað í kvöld með þremur leikjum en tveir leikir voru í úrvalsdeild karla en einn í úrvalsdeild kvenna.

Fyrsti leikur kvöldsins var á Akureyri þegar KA mætti liði Aftureldingar. Bæði lið hafa verið frekar óstöðug í vetur og sitja bæði um miðja deild og var því búist við spennandi leik í kvöld. Annað kom þó á daginn því að Afturelding voru eldhressir eftir bílferðina og unnu leikinn nokkuð sannfærandi 3-0. Hrinurnar voru allar frekar jafnar en Afturelding var þó ávallt skrefinu á undan og vann góðan sigur og fer upp fyrir KA í töflunni.

Hinn leikurinn í úrvalsdeild karla var í Árbænum en þar mættust Fylkir og Vestri.
Bæði þessi lið voru í neðri hluta töflunnar og voru með sitthvorn sigurinn. Vestramenn höfðu þó verið á ágætu skriði og tekið hrinu á móti Hamri og unnið KA.
Vestri byrjaði leikinn frábærlega og unnu öruggan sigur í fyrstu hrinu. Eftir það sveiflaðist leikurinn töluvert og skiptust liðin á að vinna hrinur. Það fór svo á endanum að skera þurfti úr um sigurvegara í oddahrinu þar sem Vestri hafði betur í miklum spennutrylli sem fór alla leið í upphækkun. Vestri vann hrinuna 17-15 og leikinn þar með 3-2.

Vestri er enn í 6. sæti deildarinnar en nálgast liðin fyrir ofan sig en Fylkis menn sitja enþá í næst neðsta sætinu með einn sigurleik.

Einn leikur fór síðan fram í úrvalsdeild kvenna en þar mættust HK og Þróttur R. en þessi leikur var skráður heimaleikur Þróttar að þessu sinni þar sem bæði lið leika heimaleiki sína í Digranesi.
Leikurinn var jafn til að byrja með og voru bæði lið ákveðinn og ætluðu sér sigur í leiknum. HK vann fyrstu hrinuna eftir mikla baráttu 26-24. Eftir það misstu Þróttur aðeins trúnna og nýtti HK sér það. Þær unnu næstu tvær hrinur nokkuð þægilega 25-12 og 25-17. HK sigrar leikinn þar með 3-0 og kemst aftur upp í þriðja sætið. Þróttur R. á hinsvegar enn eftir að ná í sinn fyrsta sigur og situr á botninum ásamt Völsungi.