[sam_zone id=1]

Úrslitaleikir í Þjóðadeildinni

Þessa vikuna fara fram síðustu leikir Þjóðadeildarinnar þar sem leikið verður til úrslita í bæði karla- og kvennaflokki.

Grunnstigi kvennadeildarinnar lauk síðastliðinn sunnudag og verður leikið til undanúrslita á morgun, fimmtudag. Þá kemur í ljós hvaða lið leika um gullið en úrslitaleikurinn og bronsleikurinn fara fram á föstudag. Karladeildinni lauk í kvöld en þar hefjast undanúrslitin á laugardag og leikið verður um gull og brons á sunnudag.

Kvennadeildin

Hjá konunum hafði bandaríska liðið nokkra yfirburði og vann fyrstu 14 leiki sína. Þær höfðu þá tryggt sér efsta sæti deildarinnar og kom ekki að sök þó að síðasti leikurinn hefði tapast. Skammt á eftir þeim kom lið Brasilíu en í þriðja og fjórða sætinu voru Japan og Tyrkland. Kína rétt missti af fjórða sætinu og þar með sæti í undanúrslitunum.

Í undanúrslitum mætast annars vegar lið Brasilíu og Japan og hins vegar lið Bandaríkjanna og Tyrklands. Fyrri leikurinn hefst klukkan 14:00 á fimmtudag og hinn leikurinn beint í kjölfarið eða klukkan 17:30. Föstudagurinn hefst svo á bronsleiknum klukkan 14:00 og úrslitaleikur kvenna hefst klukkan 17:30.

Karladeildin

Í karlaflokki áttu Brasilía og Pólland frábærar vikur og höfðu tryggt sér sæti í undanúrslitum nokkuð snemma. Lið Slóveníu kom töluvert á óvart og átti mikla möguleika fyrir síðustu keppnisvikuna. Frakkland, Rússland og Serbía fylgdu fast á hæla Slóveníu og það varð ekki ljóst fyrr en eftir lokaleikina í dag hverjir færu í undanúrslitin.

Frakkland mætti Póllandi í dag í lokaleik sínum og vann þar frábæran 3-2 sigur og tryggði sér fjórða sætið. Slóvenía vann í dag gegn Búlgaríu og nær þriðja sætinu. Rússland vann Brasilíu en það dugði ekki til og Serbía átti enga möguleika eftir tap gegn Kanada.

Undanúrslitin hjá körlunum fara fram á laugardag og leikið verður til verðlauna á sunnudag. Fyrri undanúrslitaleikurinn, þar sem að lið Brasilíu og Frakklands mætast, hefst klukkan 9:30 á laugardag svo það er eins gott að byrja daginn snemma. Seinni leikur dagsins verður svo leikur Póllands og Slóveníu sem hefst klukkan 13:00. Á sunnudag er leikið á sömu tímum, bronsleikurinn hefst 9:30 og úrslitaleikurinn 13:00.