[sam_zone id=1]

Úrslit dagsins í Úrvalsdeildunum

Það var leikið í úrvalsdeild karla og kvenna í dag og var fullt af skemmtilegum leikjum í boði. Í Neskaupstað voru bæði lið HK í heimsókn en í úrvalsdeild kvenna var svo einnig botnslagur og toppslagur á dagskrá í dag.

Þetta hófst allt með leik HK og Þróttar F. í karlaflokki, Þróttur hafa átt gott tímabil hingað til og aðeins tapað tveimur leikjum. HK hafa hinsvegar gert enn betur og hafa aðeins tapað einum leik, þeir sýndu einnig styrk sinn í dag og unnu öruggan 3-0 sigur (25-16, 25-17, 25-18). Stigahæstur hjá HK var Hristiyan Dimitrov með 17 stig en hjá Þrótti var Andri Snær með 8 stig.
Strax þar á eftir mættust kvennalið félagsins, liðin voru í þriðja og fjórða sæti fyrir leik og því var búist við hörkuleik. Leikurinn var jafn til að byrja með en þegar leið á voru heimakonur sterkari og unnu að lokum nokkuð öruggan 3-0 sigur (26-24, 25-21, 25-12). Bæði þessi lið mætast svo aftur á morgun.

Í Reykjavík áttust svo við Þróttur R. og Völsungur, bæði þessi lið voru að leita að sínum fyrsta sigri á tímabilinu og var ljóst að annað liðið myndi ná því í dag. Úr varð fínasta skemmtun þar sem bæði lið sýndu góða takta. Fyrstu tvær hrinurnar voru jafnar en þar liðin skiptust á að vinna þær. Eftir það voru það gestirnir frá Húsavík sem að áttu meira eftir og unnu þær síðustu tvær hrinurnar örugglega og  náðu sér þar með í sinn fyrsta sigur í vetur, 3-1 (26-28, 25-21, 18-25, 16-25). Þær skilja því Þrótt R. einar eftir á botninum en Þróttur getur hefnt fyrir tapið á morgun en þá mætast þessi sömu lið aftur.

Dagurinn endaði svo á stórleik á Akureyri en þar mættust tvö efstu lið deildarinnar KA og Afturelding. KA stelpur voru taplausar fyrir leikinn en Afturelding hafði einungis tapað einum leik á móti KA, það var því búist við hörkuleik.
Leikurinn var jafn til að byrja með og fylgdust liðin að fram í miðja hrinu, þá skriðu Afturelding framúr og unnu 25-21. Hinar tvær hrinurnar voru svo keimlíkar, liðin voru nokkuð jöfn en Afturelding þó alltaf skrefinu á undan. Þannig að þrátt fyrir góða baráttu KA þá voru það Afturelding sem að unnu toppslaginn 3-0 (21-25, 21-25, 20-25). Í þessum leik var það Thelma Dögg sem var langbesti leikmaður vallarins en hún gerði 23 stig, hjá KA var Paula del Olmo atkvæðamest með 14 stig.