[sam_zone id=1]

Tvö íslensk lið í Búlgaríu

Tvö íslensk strandblakslið taka þátt í World Tour móti í Búlgaríu sem fram fer nú um helgina.

Þær Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir léku í Sofia, Búlgaríu, fyrir um tveimur vikum og taka þátt í öðru móti á sama stað þessa helgina. Að þessu sinni komust Thelma Dögg Grétarsdóttir og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir einnig inn á mótið en þær kepptu í undankeppni mótsins nú snemma í morgun. Þar mættu þær liði frá Slóveníu, Klara Kregar og Tjasa Jancar.

Thelma og Jóna byrjuðu leikinn nokkuð vel og héldu í við þær slóvensku en um miðja hrinu gerðu Kregar/Jancar vel. Þær sigu fram úr undir lokin og unnu hrinuna 21-11. Íslenska liðið byrjaði frábærlega í annarri hrinu og náði 2-4 forystu. Það dugði þó skammt en Kregar/Jancar áttu frábæra hrinu og unnu 21-7, leikinn þar með 2-0. Thelma og Jóna eru því úr leik og komast ekki í meginhluta keppninnar að þessu sinni.

Berglind og Elísabet fengu beinan þátttökurétt í meginhlutanum en hann hefst á morgun, föstudag.