[sam_zone id=1]

Tveir tapleikir í Leuven

Það urðu tímamót í íslensku strandblaki um helgina þegar World Tour mót fór fram í Leuven, Belgíu.

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir hafa farið mikinn í sandinum þetta sumarið og varla tapað leik síðan þær hófu keppnistímabilið. Þessa helgina var komið að alþjóðlegu móti hjá stelpunum en þær tóku þátt í World Tour móti í Belgíu. Áður hafa íslensk lið þurft að fara í gegnum undankeppni á mótum sem þessum en Berglind og Elísabet fengu þátttökurétt í aðalhluta mótsins, fyrstar íslenskra strandblaksliða.

Fyrsti leikur – Catry/Vandesteene

Fyrsti leikur þeirra fór fram á föstudagsmorguninn þegar þær mættu belgíska parinu Catry/Vandesteene. Leikurinn fór afar vel af stað hjá íslensku stelpunum sem leiddu allt frá upphafi fyrstu hrinu. Þær belgísku voru þó ekki langt undan og náðu að jafna leikinn undir lok hrinunnar. Lokakaflinn var æsispennandi en Catry/Vandesteene unnu hrinuna 23-25 og leiddu leikinn 0-1. Önnur hrinan byrjaði einnig vel hjá Berglindi og Elísabetu en Belgarnir reyndust sterkari og unnu 16-21, og unnu leikinn þar með 0-2.

Annar leikur – Harnett/Dormann

Stelpurnar léku annan leik á föstudag og mættu þar kanadísku liði, Harnett/Dormann. Líkt og íslensku stelpurnar höfðu þær kanadísku tapað fyrsta leik sínum og því þurftu bæði lið nauðsynlega á sigri að halda. Íslensku stelpurnar áttu góða kafla í fyrstu hrinu en töpuðu henni þó 14-21. Svipaða hluti var að segja um aðra hrinu þar sem vantaði herslumuninn og þær kanadísku unnu 15-21. Leikurinn tapaðist því 0-2 og íslensku stelpurnar úr leik á mótinu.

Næst á dagskrá hjá stelpunum er annað alþjóðlegt mót en þær halda nú til Búlgaríu. Thelma Dögg Grétarsdóttir og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir eru einnig skráðar á mótið í Búlgaríu og verður frábært að fá að fylgjast með tveimur íslenskum liðum spreyta sig á mótinu.