[sam_zone id=1]

Tveir íslendingar í undanúrslit danska bikarsins

Undanfarna daga hafa 8 liða úrslit danska bikarsins verið leikin og voru alls fjórir íslendingar í eldlínunni. Það eru þau Valþór Ingi Karlsson, þjálfari kvennaliðs ASV Elite, Unnur Árnadóttir, sjúkraþjálfari sama liðs og Galdur Máni Davíðsson og Ævarr Freyr Birgisson, báðir leikmenn Boldklubben Marienlyst.

ASV Elite tóku á móti Gentofte Volley á heimavelli og var ansi mikil spenna fyrir leiknum þar sem liðin mættust viku fyrr í deildinni þar sem Gentofte fór með sigur af hólmi. Eftir spennandi fyrstu hrinu sem lauk 25-23 fyrir ASV Elite var engin spurning um hvort liðið væri á leiðinni í undanúrslit. ASV unnu næstu tvær hrinur 25-13 og 25-19 og tryggðu sér þar með miða í Final4 helgina sem verður haldin á þeirra heimavelli 5.-6. febrúar 2021.

Boldklubben Marienlyst mættu nágrönnum sínum og erkifjendum frá Middelfart seinni part sunnudags. Eftir góða byrjun og þægilegan sigur í fyrstu hrinu fóru Marienlyst að gera of mörg mistök á meðan Middelfart spiluðu betur og betur. Lokaniðurstaða leiksins var 1-3 sigur Middelfart og Marienlyst voru þar með úr leik. Ævarr Freyr spilaði fyrstu þrjár og hálfa hrinuna og var stigahæstur í liðinu með 10 stig ásamt því að hafa staðið sig vel í móttökunni. Galdur Máni kom inn á í síðari hluta fjórðu hrinunnar og skoraði eitt stig ásamt því að gera Middelfart erfitt fyrir í móttökunni með góðum uppgjöfum.