[sam_zone id=1]

Tvær gullhrinur hjá körlunum

Ótrúleg spenna var í leikjum Meistaradeildar karla í vikunni þar sem að seinni leikir 8-liða úrslitanna fóru fram.

Eftir skemmtilega leiki í síðustu viku var komið að uppgjöri liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar karla. Zaksa og Modena unnu nokkuð óvænta sigra í fyrri leikjunum þar sem þau lögðu sterk lið Lube og Perugia. Þar var von á mikilli spennu í báðum leikjum og urðu áhorfendur alls ekki fyrir vonbrigðum þar sem úrslit beggja viðureigna réðust í gullhrinu.

Perugia og Modena mættust á þriðjudag í fyrsta leik vikunnar og þurfti Perugia að vinna leikinn 3-0 eða 3-1 til að fá fram gullhrinu. Modena dugði hins vegar að vinna tvær hrinur til að komast í undanúrslitin en 3-0 og 3-1 sigrar telja jafn mikið. Vinni lið hins vegar 3-2 sigur í fyrri leik gildir það minna en 3-1 eða 3-0 sigur. Það getur því haft gríðarleg áhrif á lokastöðuna hvort að fyrri leik ljúki 3-1 eða 3-2.

Leikur liðanna bauð upp á ótrúlega skemmtun og gæði en það voru Perugia sem höfðu betur. Þeir unnu leikinn 3-0 eftir mikla spennu og þurfti því gullhrinu til að útkljá sigurvegara einvígisins. Þar fór Oleh Plotnytskyi á kostum í uppgjafareitnum auk þess sem Wilfredo Leon skoraði þrjú stig beint úr hávörn. Modena átti aldrei möguleika í gullhrinunni sem Perugia vann 15-5 og heimamenn í Perugia tryggðu sér því sæti í undanúrslitum keppninnar.

Í Póllandi mætti Zaksa liði Lube og þar var einnig boðið upp á frábæra skemmtun. Eftir að hafa tapað fyrri leiknum 3-1 náði Lube að gera töluvert betur og vann 3-0 sigur í jöfnum leik. Þá tók við gullhrina þar sem að liðin voru hnífjöfn. Lube var skrefinu á undan í seinni hluta hrinunnar en öflugar uppgjafir Zaksa gerðu ítalska liðinu erfitt fyrir. Lukasz Kaczmarek skoraði sigurstigið beint úr uppgjöf og tryggði Zaksa 16-14 sigur í gullhrinunni. Zaksa fer því áfram í undanúrslit á kostnað Lube.

Stórlið Zenit Kazan mætti Belchatow á heimavelli sínum og þurfti einungis að vinna tvær hrinur til að tryggja sæti sitt í undanúrslitunum. Lið Belchatow lék vel í byrjun leiks og vann fyrstu hrinuna en eftir það hafði Kazan góð tök á leiknum. Heimamenn unnu næstu tvær hrinur sannfærandi og höfðu þar með tryggt sig áfram. Eftir það léku varamenn beggja liða stórt hlutverk og vann Zenit Kazan á endanum 3-2 sigur.

Síðasti leikur vikunnar var hjá Trentino gegn Berlin. Fyrstu tvær hrinur leiksins voru æsispennandi og gestirnir frá Þýskalandi gáfu allt í leikinn. Allt kom þó fyrir ekki og vann Trentino fyrstu tvær hrinurnar, 25-22 og 25-21, sem þýddi að þeir færu í undanúrslitin. Í þriðju hrinunni var allur vindur úr leikmönnum Berlin og vann Trentino auðveldan 25-14 sigur til að tryggja 3-0 sigur í leiknum.

Undanúrslitin eru með sama fyrirkomulagi og 8-liða úrslitin þar sem tveir leikir fara fram og samanlögð úrslit telja. Fyrri leikirnir fara fram dagana 16.-18. mars og seinni leikirnir viku seinna. Hér fyrir neðan má sjá hvaða lið mætast í undanúrslitunum en annar leikurinn verður ítalskur slagur milli Trentino og Perugia. Í hinni viðureigninni mætast lið Zaksa og Kazan sem hafa leikið hvað best allra í Meistaradeildinni og teljast bæði líkleg til að fara alla leið.

Undanúrslit

Zenit Kazan – Zaksa Kedzierzyn-Kozle

Trentino Itas – Sir Safety Perugia

Úrslit vikunnar

Perugia 3-0 Modena (25-23, 25-18, 25-21 – Gullhrina : 15-5 – Perugia fer áfram). Wilfredo Leon skoraði 24 stig fyrir Perugia og Oleh Plotnytskyi bætti við 17 stigum. Luca Vettori var stigahæstur hjá Modena með 14 stig og Daniele Lavia skoraði 8 stig.

Zaksa 0-3 Lube (22-25, 24-26, 24-26 – Gullhrina : 16-14 – Zaksa fer áfram). Lukasz Kaczmarek og Kamil Semeniuk skoruðu 15 stig hvor fyrir Zaksa og næstur kom Jakub Kochanowski með 14 stig. Osmany Juantorena var stigahæstur hjá Lube með 15 stig en næstir komu Yoandy Leal og Kamil Rychlicki með 14 stig hvor.

Zenit Kazan 3-2 Skra Belchatow (22-25, 25-19, 25-17, 13-25, 15-12 – Zenit Kazan fer áfram). Bartosz Bednorz og Maxim Mikhailov voru stigahæstir hjá Kazan með 15 stig hvor og Earvin Ngapeth skoraði 12 stig. Milad Ebadipour og Dusan Petkovic skoruðu 10 stig hvor fyrir Skra en næstur kom Norbert Huber með 9 stig.

Trentino Itas 3-0 Berlin Recycling Volleys (25-22, 25-21, 25-14 – Trentino fer áfram). Nimir Abdel-Aziz var stigahæstur hjá Trentino með 12 stig og Ricardo Lucarelli skoraði 8 stig. Benjamin Patch skoraði 8 stig fyrir Berlin en næstir komu Samuele Tuia og Eder Carbonera með 7 stig hvor.

Mynd : Heimasíða CEV