[sam_zone id=1]

Trentino vann allt á heimavelli

Meistaradeild Evrópu hófst í karlaflokki í þessari viku þegar leikið var í E-riðli.

Riðlakeppnin fór loks af stað í Meistaradeild Evrópu þegar leikið var í E-riðli í Trento á Ítalíu. Lið E-riðils hafa nú spilað þrjá leiki hvert og er staðan vænleg fyrir lið Trentino sem vann alla þrjá leiki sína þrátt fyrir að vera án Simone Giannelli, landsliðsuppspilara Ítalíu.

Trentino lék leikina þrjá án beggja uppspilara sinna en þeir hafa verið frá vegna kórónuveirusmita innan liðsins. Nimir Abdel-Aziz, sem er öflugasti sóknarmaður liðsins, tók við uppspilarastöðunni enda lék hann lengi vel sem uppspilari áður en hann skipti um stöðu fyrir um sex árum. Þetta veikti liðið töluvert ef litið er eingöngu á byrjunarliðið en Trentino lék hins vegar mjög vel alla vikuna og kom sér í ansi góða stöðu.

Fyrsti leikur riðilsins bauð upp á magnaða skemmtun og ótrúlegar tölur. Novosibirsk vann fyrstu tvær hrinur sínar gegn Trentino (21-25, 23-25) en heimamenn komu til baka og unnu næstu tvær (25-23, 25-23). Oddahrinan var svo eign Trentino sem vann 15-2 sigur. Það eru tölur sem sjást ekki á hverjum degi, hvað þá í sterkustu deild Evrópu.

Friedrichshafen kom nokkuð á óvart en liðið vann bæði Karlovarsko og Novosibirsk. Leikmenn þýska liðsins virtust þó þreyttir í lokaleiknum gegn Trentino en náðu engu að síður í tvo sigra og sex stig. Novosibirsk og Karlovarsko mættust í lokaleik riðilsins þessa vikuna en þar hafði Novosibirsk betur og vann sinn fyrsta leik. Sigurinn gefur þeim von um að komast áfram í útsláttarkeppnina en þeir þurfa þá að gera mun betur í seinni þremur leikjum sínum.

Keppni í riðlum A, B og C fer fram dagana 8.-10. desember og D-riðill fer fram 15.-17. desember. Beinar útsendingar frá leikjunum má sjá á EuroVolley TV.

Úrslit vikunnar

 

Trentino Itas 3-2 Lokomotiv Novosibirsk (21-25, 23-25, 25-23, 25-23, 15-2). Dick Kooy var stigahæstur allra en hann skoraði 20 stig fyrir Trentino. Hjá Novosibirsk skoruðu Sergey Savin og Dmitrii Lyzik 15 stig hvor.

CEZ Karlovarsko 1-3 VfB Friedrichshafen (14-25, 22-25, 25-23, 16-25). Marcel Lux skoraði 18 stig fyrir Karlovarsko en Linus Weber var stigahæstur allra með 22 stig fyrir Friedrichshafen.

VfB Friedrichshafen 3-0 Lokomotiv Novosibirsk (25-20, 25-23, 25-22). Linus Weber var atkvæðamestur í liði Friedrichshafen með 19 stig en Drazen Luburic skoraði 18 stig fyrir Novosibirsk.

CEZ Karlovarsko 1-3 Trentino Itas (25-19, 18-25, 18-25, 20-25). Lukas Vasina skoraði 15 stig fyrir Karlovarsko en hjá Trentino var Dick Kooy stigahæstur með 18 stig.

VfB Friedrichshafen 0-3 Trentino Itas (19-25, 18-25, 18-25). Linus Weber var, líkt og í hinum leikjum Friedrichshafen, stigahæstur sinna manna með 11 stig. Srecko Lisinac og Alessandro Michieletto skoruðu 12 stig hvor fyrir Trentino en Michieletto er einungis 19 ára gamall og átti frábæran leik í sókn sem og móttöku.

Lokomotiv Novosibirsk 3-1 CEZ Karlovarsko (25-19, 25-27, 25-18, 25-22). Drazen Luburic var öflugur í liði Novosibirsk og skoraði 25 stig. Hjá Karlovarsko skoruðu Marcel Lux og Marc Major Gunning Wilson 12 stig hvor.