[sam_zone id=1]

Tímabilinu lokið hjá Ævarri vegna kórónaveirunnar

Volleyball Danmark gaf það út í dag að leikirnir um 5.-10. sætin í dönsku úrslitakeppninni verði ekki leiknir vegna hættu á smiti vegna kórónaveirunnar. Ævarr Freyr Birgisson og lið hans, Boldklubben Marienlyst, töpuðu 8 liða úrslitunum í oddaleik gegn ASV Elite og áttu þess vegna að spila um 5.-10. sætin.

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá mörgum að kórónaveiran breiðist um meginland Evrópu eins og eldur í sinu og er Danmörk þar engin undantekning. Í gær höfðu 90 manns verið greindir þar í landi en sú tala hafði risið upp í 262 í dag.

Samkvæmt heimasíðu Volleyball Danmark eru það einungis leikirnir um 5.-10. sætin sem er aflýst en undanúrslit og úrslit verða leikin eins og staðan er í dag. Þó eru smávægilegar breytingar á undanúrslitunum þar sem einungis þarf að vinna tvo leiki í staðinn fyrir þrjá eins og vaninn hefur verið.