[sam_zone id=1]

Þróttur R vann sinn fyrsta sigur

Einn leikur fór fram í Mizunodeild kvenna í dag og fór leikurinn fram í Digranesi í Kópavogi.

Þróttur Reykjavík tók á móti Álftanesi í Mizunodeild kvenna. Gestirnir fóru vel af stað og forysta Álftnesinga jókst eftir því sem leið á hrinuna. Þær unnu afar öruggan 17-25 sigur og leiddu 0-1. Þróttur R sneri taflinu strax við í upphafi annarrar hrinu og leiddi 4-0. Álftanes kom sér fljótt aftur inn í leikinn og varð hrinan æsispennandi. Álftanes náði 20-22 forystu undir lok hrinunnar en Þróttur R tók þá leikhlé sem virtist gera gæfumuninn. Þróttur vann hrinuna 25-23 og jafnaði leikinn 1-1.

Þriðja hrina leiksins var afar sveiflukennd. Heimakonur tóku forystuna í upphafi en skyndilega voru gestirnir komnir 14-19 yfir. Þróttur skoraði 6 stig í röð og leiddi 20-19 en lokakaflinn var hnífjafn líkt og í þriðju hrinu. Aftur voru það heimakonur í Þrótti R sem unnu 25-23 og leiddu nú leikinn 2-1. Sveiflurnar voru litlu minni í fjórðu hrinu og aftur var það Álftanes sem hafði þægilega forystu um miðja hrinu. Þróttur gerði þá enn betur en í 3. hrinu og skoraði 9 stig í röð sem gaf þeim 17-14 forystu. Eftir spennandi kafla skoraði Álftanes 5 síðustu stig hrinunnar og vann hana 21-25.

Það kom á óvart í oddahrinunni að Þróttur R tók mjög örugga forystu, 10-4, eftir þrjár spennandi hrinur í röð. Heimakonur voru mun sterkari í oddahrinunni og unnu hana örugglega, 15-10. Þróttur R vann leikinn því 3-2 og var þetta fyrsti sigur liðsins á tímabilinu og sá fyrsti á nýjum heimavelli í Digranesi. Þróttur Reykjavík er nú með fjögur stig eftir jafn marga leiki og er liðið jafnt Þrótti Fjarðabyggð að stigum. Álftanes kemur þar rétt á eftir með tvö stig eftir fimm leiki og er nú eina lið deildarinnar sem hefur ekki unnið leik.

Kvennamegin verður spilað á fimmtudag en þá mætast HK og Afturelding í toppslag og fer sá leikur fram í Fagralundi. Kvennalið HK er enn ósigrað og er með fullt hús stiga á toppnum en Afturelding kemur þar skammt á eftir í 2. sæti deildarinnar. Næstu helgi fara svo fjölmargir leikir fram í Mizunodeildunum.