[sam_zone id=1]

Þróttur R. hefndi fyrir tapið í gær og spenna fyrir austan

Það voru endurteknir leikir í gær bæði karla og kvennameginn en þá mættust Þróttur R. og Völsungur öðru sinni á meðan Þróttur/Fjarðabyggð mætti HK aftur bæði karla og kvennameginn.

Völsungur vann fyrri leik liðanna í gær 3-1 og náði sér þar með í sinn fyrsta sigur í deildinni. Þróttur R. átti hins vegar enn eftir að ná í sinn fyrsta sigur.
Leikurinn var afar jafn og spennandi og ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt eftir. Þróttara stelpur byrjuðu leikinn betur og unnu fyrstu hrinuna eftir mikla spennu 25-22, Völsungur tóku þá við sér og snéru leiknum sér í vil og unnu aðra hrinuna 25-18.
Áfram héldu liðin að skiptast á því að hafa forystuna og úr varð hinn skemmtilegasti leikur. Liðin sigruðu sitthvora hrinuna til viðbótar og var því ljóst að það þyrfti að finna sigurvegara í oddahrinu. Þar héldu liðin áfram að fylgjast að og úr varð hörkuspennandi hrina sem réðst með minnsta mun 15-13 fyrir Þrótt R. sem nær því að hefna fyrir tapið í gær og eru þær þá einnig komnar með stig á töfluna í vetur.

Úrslitin breyta litlu fyrir liðin en þau eru enþá við botninn og er smá bil í næstu lið. Eftir helgina eru Völsungur þó með 4 stig og Þróttur R. með 2 og hafa bæði lið nú unnið leik í vetur.

Fyrir austan fóru síðan fram tveir leikir í gær en þá mættust Þróttur/Fjarðabyggð og HK öðru sinni um helgina.
Karlarnir hófu leik en það voru gestirnir úr Kópavoginum sem voru mun sterkari í byrjun hrinunnar og unnu þeir fyrstu hrinu örugglega 25-16. Þróttur/Fjarðabyggð hélt áfram að bæta sig þegar leið á leikinn og veittu þeir HK meiri samkeppni í annari hrinunni, það var þó ekki nóg og vann HK hana einnig 25-20. Þróttarar voru þó ekki á því að gefast upp og gerðu þeir enn betur í næstu hrinu þar sem þeir unnu hrinuna 25-22 og allt opið enþá.
HK gáfu þó aftur í leiddir áfram af Hristiyan Dimitrov og unnu þeir fjórðu hrinuna örugglega 25-15 og leikinn þar með 3-1.

Stigahæstur og besti maður vallarins var Hristiyan Dimitrov hjá HK en hann skoraði heil 33 stig en hjá Þrótti/Fjarðabyggð var Jose Martin stigahæstur með 11 stig.

Staða liðanna breytist lítið HK er enþá í öðru sæti deildarinnar 3 stigum á eftir toppliði Hamars á meðan Þróttur/Fjarðabyggð er í fjórða sætinu með 13 stig jafnmörg stig og KA í fimmta sætinu en þau lið mætast einmitt um næstu helgi í síðasta leik liðanna fyrir jól.

Strax á eftir þessum leik hófst leikur á milli kvennaliða félagsins en Þróttur/Fjarðabyggð vann fyrri leik liðanna 3-0 og átti HK því harma að hefna.

Þróttur/Fjarðabyggð byrjaði leikinn í gær eins og þær enduðu fyrri leikinn og hreinlega völtuðu yfir HK í fyrstu hrinu leiksins sem þær unnu 25-10. HK liðið vaknaði aðeins eftir það og bættu sinn leik en Þróttara stelpur voru þó aldrei á því að hleypa HK inn í leikinn og unnu þær einnig næstu tvær hrinur 25-18 og 25-19 og leikinn þar með 3-0.

Stigahæstar í kvennaleiknum voru þær María Jimenez Gallego og Paula Miguel de Blaz sem skoruðu 12 og 11 stig fyrir Þrótt.
Lejla Sara Hadziredzepovic skoraði einnig 12 stig fyrir HK og Sóldís Björt Leifsdóttir Blöndal bætti við 8.

Þróttur/Fjarðabyggð nær því í 6 mikilvæg stig og lyftir sér upp í þriðja sæti deildarinnar upp fyrir HK sem er nú í fimmta sætinu þrem stigum á eftir Þrótti/Fjarðabyggð.