[sam_zone id=1]

Þróttur Nes vann tvívegis í Neskaupstað

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeildunum í dag, einn í karlaflokki og einn í kvennaflokki.

Báðir leikir dagsins fóru fram í Neskaupstað og í fyrri leik dagsins var það Þróttur Nes sem mætti Álftanesi í karlaflokki. Fyrir leik var Þróttur Nes í 4. sæti deildarinnar með 6 stig eftir jafn marga leiki en Álftanes í 7. sæti með 3 stig eftir þrjá leiki. Þróttur Nes tefldi fram fullskipuðu liði en Álftnesingar mættu einungis með 8 leikmenn. Þeir voru þó með flesta af byrjunarliðsleikmönnum sínum.

Þróttur Nes náði yfirhöndinni mjög snemma í fyrstu hrinu leiksins en mestur varð munurinn 5 stig undir lok hrinunnar. Álftanes átti góðan lokakafla en það dugði ekki til, Þróttur Nes vann fyrstu hrinu 25-22 og leiddi 1-0. Önnur hrina leiksins var lík þeirri fyrstu þar sem að Þróttur Nes byrjaði betur og hafði aftur forskot undir lokin. Álftanes minnkaði muninn úr 24-19 í 24-23 en þá skoruðu heimamenn loks og unnu hrinuna 25-23.

Álftanes byrjaði frábærlega í þriðju hrinu og náði 1-6 forystu. Þeir leiddu enn um miðja hrinuna en þá komst Þróttur Nes á skrið og breytti stöðunni úr 9-15 í 18-16. Gestunum gekk illa undir lok hrinunnar og Þróttarar gengu á lagið. Þróttur Nes vann 25-20 og vann leikinn þar með 3-0. Þróttur Nes er nú með 9 stig í 3. sæti Mizunodeildarinnar en hafa spilað 7 leiki, flesta allra liða. Álftanes er enn í 7. sæti með þrjú stig úr fjórum leikjum.

Kvennamegin mætti Þróttur Nes liði Þróttar Reykjavíkur en bæði lið voru staðráðin í að ná í sinn fyrsta sigur á tímabilinnu. Bæði lið voru stigalaus en Þróttur Nes hafði spilað tvo leiki á meðan að Þróttur Reykjavík hafði einungis spilað einn leik hingað til. Það var því ljóst að annað liðið myndi vinna sinn fyrsta sigur á tímabilinu og ná í leiðinni í sín fyrstu stig.

Gestirnir frá Reykjavík byrjuðu mun betur í fyrstu hrinunni og höfðu yfirhöndina alla hrinuna. Þróttur Nes náði að laga stöðuna aðeins en Þróttur R vann hrinuna 21-25. Önnur hrina var hins vegar hnífjöfn og skiptust liðin á stigum allan tímann. Undir lokin kom svo góður kafli hjá heimakonum sem skoruðu síðustu fimm stig hrinunnar og unnu hana 25-20.

Staðan var því orðin jöfn 1-1 og var lítill munur á liðunum. Um miðja þriðju hrinuna komust Norðfirðingar á skrið og höfðu forystuna. Munurinn sveiflaðist nokkuð en Þróttur R náði aldrei að koma sér almennilega inn í hrinuna. Þróttur Nes vann 25-18 og tók þar með 2-1 forystu í leiknum. Þróttur Nes tók forystuna snemma í fjórðu hrinu en Reykvíkingar voru skammt undan og héldu í við heimakonur. Gestirnir gerðu áhlaup undir lokin og með góðum uppgjöfum náðu þær að knýja fram oddahrinu með 22-25 sigri.

Þróttur Reykjavík var á fljugandi siglingu til að byrja oddahrinuna og leiddi 3-9. Þá vöknuðu heimakonur loksins til lífsins og minnkuðu muninn í eitt stig, 8-9. Síðustu stig hrinunnar voru æsispennandi en það voru heimakonur sem unnu með minnsta mun, 15-13. Þróttur Nes vinnur þar með sinn fyrsta leik á tímabilinu en Þróttur R nær einnig í sitt fyrsta sig. Þróttur Nes er nú í 4. sætinu með tvö stig eftir þrjá leiki en Þróttur R í 5.-6. sæti með eitt stig eftir tvo leiki.

Á morgun fara tveir leikir fram í Mizunodeild karla og einn í kvennadeildinni. Karlamegin mætast Vestri og Hamar klukkan 13:00 og fer sá leikur fram á Ísafirði. Þá mætast Fylkir og KA klukkan 18:15 í Fylkishöll. Kvennamegin mætast Þróttur Nes og Þróttur Reykjavík öðru sinni en sá leikur hefst klukkan 13:00.

Úrslit dagsins

Þróttur Nes 3-0 Álftanes (25-22, 25-23, 25-20). Þórarinn Örn Jónsson var stigahæstur hjá Þrótti Nes með 13 stig og Miguel Angel Ramos Melero skoraði 10 stig. Hjá Álftanesi var Austris Bucovskis stigahæstur með 13 stig og Ragnar Már Garðarsson kom næstur með 11 stig.

Þróttur Nes 3-2 Þróttur Reykjavík (21-25, 25-20, 25-18, 22-25, 15-13). Stigahæst í liði Þróttar Nes var Ester Rún Jónsdóttir með 25 stig og Maria Eugenia Sageras bætti við 20 stigum. Hjá liði Þróttar Reykjavíkur var Nicole Hannah Johansen stigahæst með 19 stig og næst kom Arna Védís Bjarnadóttir með 15 stig.