[sam_zone id=1]

Þróttur Nes semur við þrjá leikmenn

Blakdeild Þróttar Nes tilkynnti í gær að félagið hefði samið við þrjá spænska leikmenn fyrir tímabilið 2020/21.

Þróttarar hafa gengið frá samningum við þrjá spænska leikmenn og styrkja sig því töluvert fyrir átök tímabilsins. Kvennaliðið fær til sín tvo leikmenn en það eru þær María Jiménes Gallego og Maria Eugenia Sageras. Sú síðarnefnda lék með liði BF síðastliðið tímabil og fylgir hún því Gonzalo Garcia Rodriguez frá Siglufirði en hann kemur til með að þjálfa meistaraflokka félagsins.

Karlaliðið fær til sín Francisco José Lopez Barrionuevo en liðið samdi fyrr í sumar við Miguel Angel Ramos Melero um að halda áfram hjá liðinu og verða því tveir spænskir leikmenn í liðinu, líkt og á síðasta tímabili. Þau hafa nú þegar hafið æfingar með liði Þróttar en áætlað er að Mizunodeildirnar hefjist um eða eftir miðjan september. BLÍ er enn að vinna við uppsetningu leikjaplans en það ætti að skýrast á allra næstu dögum.