[sam_zone id=1]

Þrjú örugg stig hjá HK gegn Þrótti

HK og Þróttur Reykjavík mættust í úrvalsdeild kvenna í kvöld þar sem HK fór með öruggan 3-0 sigur.

HK byrjaði fyrstu hrinu af miklum krafti og völtuðu þær yfir Þrótt. Þróttarar tóku leikhlé í stöðunni 7-0 og svo aftur í stöðunni 17-3. Þróttur átti engin svör við leik HK og fór hrinan 25-10. Önnur og þriðja hrina voru aðeins jafnari en HK var alltaf með yfirhöndina í leiknum. Þegar Þróttur nálgaðist HK gat Emil Gunnarsson, þjálfari HK, skipt inn reynslumeiri leikmönnum sem kláruðu hrinurnar fyrir HK. Hrina tvö fór 25-21 og hrina þrjú fór 25-20. HK nældi sér því í þrjú þægileg stig í kvöld.

Stigahæst í leiknum var Helena Einarsdóttir með tólf stig fyrir HK. Stigahæst í liði Þróttar var Eldey Hrafnsdóttir með átta stig.