[sam_zone id=1]

Þrír leikir í úrvalsdeildum karla og kvenna í dag

Það var nóg um að vera á blakvellinum í dag þegar þrír leikir fóru fram í efstu deildum. Tveir leikir karlameginn og einn kvennameginn.

Leikar hófust á Neskaupstað þar sem karlalið Þróttar Fjarðabyggðar mætti liði Fylkis, bæði lið töpuðu leikjum sínum í fyrstu umferð þegar þau mættu KA og HK. Það var því um margt að spila fyrir bæði lið.
Þróttur Fjarðabyggð byrjaði leikinn mjög vel og voru með yfirhöndina allan tímann í fyrstu hrinu sem þeir unnu 25-17. Þróttur héldu áfram að spila vel í næstu hrinu og héldu Fylki vel frá sér, þeir unnu hana einnig 25-17 og því komnir í vænlega stöðu.
Fylkir bitu frá sér í þriðju hrinu og voru þeir með frá byrjun og var allt annað að sjá til liðsins. Hrinan var hörkuskemmtun og réðst með minnsta mun 25-23 þar sem Þróttur hafði aftur betur og unnu þeir leikinn því 3-0.
Atkvæðamestir í leiknum voru Ramses hjá Þróttir Fjarðabyggð með 13 stig og Alexander hjá Fylki með 8 stig.

Seinni leikur dagsins í Úrvalsdeild karla fór fram í Kópavogi þar sem HK mætti liði Vestra. HK unnu Fylki í fyrsta leik sínum í deildinni 3-0 á meðan Vestri tapaði tvisvar fyrir Aftureldingu og átti því enn eftir að sigra leik þetta tímabilið.
Vestri léku án uppspilara síns Juan Escalona sem var í leikbanni eftir að hafa fengið gult/rautt í síðasta leik Vestra.
Þetta virtist riðla leik Vestra manna aðeins og voru HK mun sterkari í fyrstu hrinu og unnu hana 25-16. Vestri náðu sér betur á strik í annari hrinu en það var þó ekki nóg þar sem HK vann aftur nú 25-21.
Eftir þetta virtist allur vindur úr Vestramönnum og HK unnu þriðju hrinu þægilega 25-16 og leikinn þar með 3-0.
Stigahæstur í liði Vestra var Carlos með 16 stig en Hristiyan var stigahæstur hjá HK með 14 stig.

Síðasti leikur dagsins fór einnig fram í Neskaupstað en þar voru Reykjavíkur Þróttarar mættir til að leika gegn heimakonum.
Ferðalagið virðist hafa farið eitthvað illa í gestina þar sem þær voru ekki með lífsmarki í fyrstu tveimur hrinum leiksins sem Þróttur Fjarðabyggð unnu 25-13 og 25-12. Gestirnir hrukku í gang eftir þetta og var allt annað að sjá liðið í næstu hrinu, bæði lið voru að spila vel og úr varð hin mesta skemmtun þar sem Þróttur R. unnu að lokum hrinuna 23-25.
Fjórða hrinan var einnig æsispennandi og ljóst að Þróttur R. voru búnar að ná ferðaþreytunni úr sér, heimakonur voru þó ekki á því að fara í fimm hrinur og náðu þær að vinna fjórðu hrinuna 25-22 eftir hörkuleik.