[sam_zone id=1]

Þrír hörkuleikir í dag

Þrír leikir fóru fram í úrvalsdeild karla í dag auk þess sem einn leikur fer fram kvennamegin í kvöld.

Í dag fór nánast heil umferð fram í úrvalsdeild karla en þá fóru þrír leikir fram. Vestri fékk lið Hamars í heimsókn, HK mætti KA í Digranesi og Afturelding tók á móti Þrótti Fjarðabyggð að Varmá. Í kvöld fer svo fram leikur HK og Aftureldingar í úrvalsdeild kvenna.

Úrvalsdeild karla

Vestri – Hamar

Vestri og Hamar mættust nokkrum sinnum á síðasta tímabili og gerðu Ísfirðingar Hamarsmönnum iðulega erfitt fyrir. Hamar hafði þó alltaf betur og eru enn með afar sterkt lið. Vestri saknaði Juan Escalona verulega í síðasta leik sínum gegn HK en hann var kominn aftur úr leikbanni í dag þegar Vestri og Hamar mættust á Ísafirði.

Heimamenn í Vestra byrjuðu leikinn frábærlega og leiddu nánast alla fyrstu hrinu sem þeir unnu 25-23. Þetta var fyrsta hrinan sem Hamarsmenn tapa á þessu tímabili en þeir vöknuðu aldeilis til lífsins í annarri hrinu. Hamar vann hana afar auðveldlega, 14-25, eftir að hafa náð afgerandi forystu strax í upphafi hrinunnar.

Þriðja hrina var lík annarri hrinunni þar sem að Hamar byggði upp öruggt forskot og vann sannfærandi sigur, nú 16-25. Heimamenn náðu að hanga betur í gestunum í fjórðu hrinunni en það dugði ekki til, Hamar vann 20-25 og hirti öll þrjú stigin með 1-3 sigri.

HK – KA

HK hafði unnið fyrstu þrjá leiki sína án þess að tapa hrinu en KA hafði unnið hörkuleik gegn Þrótti Fjarðabyggð og einnig höfðu þeir unnið gegn Þrótti Vogum. Leikir HK og KA hafa undanfarin ár verið afar spennandi og er það nánast óháð því hverjir leika fyrir liðin. Það var því von á góðu fyrir leik dagsins í Digranesi.

HK byrjaði leikinn afar vel og skoraði fyrstu fimm stig leiksins. KA náði sér betur á strik þegar leið á hrinuna en náði þó aldrei forystunni. HK vann að lokum 25-22 og leiddi 1-0. Í annarri hrinunni var HK áfram með yfirhöndina en forystan var aðeins örfá stig og jafnræði með liðunum allt til loka hrinunnar. HK vann þó 25-21 og var komið 2-0 yfir.

Þriðja hrinan var eign gestanna og þá sérstaklega seinni hluti hrinunnar. Eftir að hafa leitt með einu til þremur stigum framan af hrinunni stungu þeir af og unnu sannfærandi 16-25 sigur í hrinunni. Liðin skiptust á að hafa forystuna í fjórðu hrinu en nú voru það HK-ingar sem voru sterkari á lokakaflanum og unnu þeir 25-21 sigur sem tryggði 3-1 sigur í leiknum.

Afturelding – Þróttur Fjarðabyggð

Afturelding byrjaði tímabilið vel með tveimur sigrum gegn Vestra en tapaði gegn Íslandsmeisturum Hamars á dögunum. Þróttur Fjarðabyggð var nálægt sigri gegn KA á Akureyri og vann svo öruggan sigur gegn Fylkismönnum. Bæði lið höfðu því farið nokkuð vel af stað á tímabilinu og mikið undir í leiknum.

Gestirnir úr Neskaupstað byrjuðu leikinn í dag afar vel og leiddu alla fyrstu hrinuna. Hana unnu þeir nokkuð sannfærandi, 20-25, og tóku forystuna í Mosfellsbænum. Þeir gerðu enn betur í annarri hrinu en þar stungu þeir algjörlega af eftir miðbik hrinunnar. Þróttur vann 16-25 og virtist hafa öll tök á leiknum.

Afturelding gerði betur í þriðju hrinunni og hafði forystuna framan af hrinu. Þróttarar náðu að jafna leikinn um miðja hrinuna en góður lokakafli Aftureldingar sá til þess að heimamenn unnu hrinuna 25-20 og voru enn inni í leiknum. Fjórða hrina var sveiflukennd og náði Afturelding afgerandi forystu í upphafi hrinunnar. Þróttur sneri taflinu sér í vil og náði mest fimm stiga forystu en vann að lokum 22-25 eftir spennandi lokakafla. Þróttur vann leikinn þar með 1-3 og heldur austur með þrjú stig.

Sigþór Helgason var stigahæstur í liði Aftureldingar með 16 stig og Nicolas Toselli kom næstur með 15 stig. Hjá Þrótti Fjarðabyggð var Miguel Angel Ramos Melero með 15 stig og Andri Snær Sigurjónsson bætti við 11 stigum.

Í kvöld mætast HK og Afturelding í úrvalsdeild kvenna en leikurinn fer fram í Digranesi. Hægt verður að fylgjast með leiknum á streymisveitu Blaksambands Íslands.

Mynd fengin af Facebook síðu blakdeildar Hamars.