[sam_zone id=1]

Þriðja stigamóti sumarsins lokið

Um helgina fór fram þriðja stigamót sumarsins í strandblakinu en leikið var í Laugardal og Árbæ.

Blakdeild HK hélt utan um mótið að þessu sinni en þar sem framkvæmdir standa yfir í Fagralundi voru vellirnir í Laugardalslaug og Árbæjarlaug nýttir þessa helgina. Þátttaka í mótinu var töluvert minni en á síðustu mótum enda margir á faraldsfæti um miðjan júlí. Kvennamegin voru liðin 24 talsins í þremur deildum en karlamegin voru þau 16 í tveimur deildum. Þá tóku tvö lið þátt í unglingaflokkum.

Í efstu deild kvenna mættu Sara Ósk Stefánsdóttir og Matthildur Einarsdóttir systrunum Thelmu Dögg og Daníelu Grétarsdætrum í úrslitaleik. Sara og Matthildur unnu fyrstu hrinu sannfærandi en Thelma og Daníela gerðu mun betur í annarri hrinu. Hana unnu Sara og Matthildur þó líka og tryggðu sér gullverðlaun með 2-0 sigri. Matthildur og Sara hafa þar með unnið öll þrjú stigamót sumarsins. Líney Inga Guðmundsdóttir og Arna Sólrún Heimisdóttir luku keppni í þriðja sæti.

Karlamegin voru það Eiríkur R. Eiríksson og Eric Myer sem mættu Piotr Kempisty og Mateusz Blic í úrslitum. Eiríkur og Eric byrjuðu afar vel og höfðu þægilegt forskot um miðja fyrstu hrinuna. Piotr og Mateusz gáfust þó ekki upp og náðu að kreista fram 22-20 sigur. Önnur hrina var einnig hnífjöfn en Piotr og Mateusz unnu hana sömuleiðis 22-20 og leikinn því 2-0. Piotr og Mateusz unnu því gullverðlaun í annað sinn þetta sumarið en þeir unnu einnig fyrsta stigamótið. Markús Ingi Matthíasson og Lúðvík Már Matthíasson tryggðu sér þriðja sætið.

Í 2. deild karla sigruðu þeir Mateusz Klóska og Kristófer Björn Ólason Proppé og í 2. deild kvenna voru það Brynja María Ólafsdóttir og Rasa Ratkuté sem tryggðu sér gullverðlaun. Emelía Eiríksdóttir og Birna Ágústa Sævarsdóttir unnu 3. deild kvenna. Öll úrslit helgarinnar má finna á Stigakerfi Strandblaksnefndar BLÍ.

Þeir Fjölnir Logi Halldórsson og Einar Arngeir Heiðarsson sigruðu í unglingaflokki eftir tvo flotta leiki gegn Höllu Marín Sigurjónsdóttur og Hildi Ósk Úlfarsdóttur. Næsta stigamót fer fram á Akureyri dagana 5.-8. ágúst og Íslandsmótið fer svo fram á Höfuðborgarsvæðinu 19.-22. ágúst.