[sam_zone id=1]

Þær bandarísku náðu loksins í gullið

Síðasti keppnisdagurinn í blakinu var dagurinn í dag en öllum leikjum er nú lokið bæði karla- og kvennamegin.

Í gær fór fram úrslitaleikur karla þar sem Frakkland vann ævintýralegan sigur gegn liði rússnesku Ólympíunefndarinnar en í nótt fóru fram úrslitaleikur og bronsleikur kvenna. Í bronsleiknum mætti Suður-Kórea liði Serbíu og úrslitaleikurinn var viðureign Brasilíu og Bandaríkjanna.

Suður-Kórea – Serbía

Á miðnætti hófst bronsleikurinn en það var lið Suður-Kóreu sem byrjaði betur í fyrstu hrinu. Stuðningsmenn serbneska liðsins hafa eflaust orðið smeykir um miðja hrinu þegar kóreska liðið leiddi en Serbía náði að snúa taflinu sér í vil og vann öruggan 18-25 sigur í hrinunni. Eftir þetta var ekki spurning hvaða lið færi með sigur í leiknum en Serbía var mun sterkari aðilinn.

Serbía lék afar vel í seinni tveimur hrinum leiksins sem lauk báðum með 15-25 sigri Serbíu. Serbarnir unnu leikinn því 0-3 og tryggðu sér bronsverðlaunin. Líkt og oft áður var Kim Yeon Koung stigahæst hjá Suður-Kóreu en hún skoraði 11 stig í leiknum. Tijana Boskovic fór svo fyrir liði Serbíu en hún skoraði heil 33 stig fyrir liðið. Næst kom Mina Popovic með 8 stig en Boskovic fékk ekki mikla hjálp í síðustu tveimur leikjum liðsins, þeim allra mikilvægustu.

Brasilía – Bandaríkin

Lið Brasilíu var enn taplaust í keppninni en Bandaríkin töpuðu einum leik í riðlakeppni mótsins. Það skipti hins vegar engu máli í nótt þegar liðin mættu í úrslitaleiknum og bandaríska liðið var í miklu stuði í upphafi leiksins. Eftir að byrja hrinuna á að komast 0-4 yfir héldu þær naumri forystu út fyrstu hrinuna og unnu 21-25 sigur. Jordan Thompson var ekki í byrjunarliði Bandaríkjanna eftir að hafa meiðst fyrr í keppninni en það kom ekki að sök þar sem Andrea Drews lék glimrandi vel sem díó liðsins.

Þær brasilísku byrjuðu ögn betur í annarri hrinunni en fljótlega seig bandaríska liðið fram úr og náði afgerandi forystu. Brasilía klóraði í bakkann undir lok hrinunnar en það kom ekki í veg fyrir þægilegan sigur Bandaríkjanna, 20-25. Þriðja hrina leiksins var hreint út sagt ótrúleg en þar völtuðu Bandaríkin gjörsamlega yfir brasilíska liðið og vann 14-25 sigur. Bandaríkin unnu leikinn þar með 0-3 og tryggðu sér gullverðlaun í blaki kvenna í fyrsta skipti í sögunni.

Í úrslitaleiknum voru það Fe Garay og Gabi Guimaers sem fóru fyrir liði Brasilíu en Garay skoraði 11 stig og Gabi 10 stig. Í liði Bandaríkjanna var Andrea Drews stigahæst með 15 stig og Michelle Bartsch-Hackley bætti við 14 stigum. Bandaríkin unnu alla leiki sína í útsláttarkeppninni 3-0 og það mætti því segja að þær hafi toppað á hárréttum tíma. Bandaríkin höfðu áður unnið til fjölda verðlauna í kvennablakinu en aldrei farið alla leið og tekið gullið á Ólympíuleikunum.

Frábærum Ólympíuleikum er nú að ljúka en keppni í blaki og strandblaki er nú þegar lokið. Lokahátíðin sjálf fer fram nú í hádeginu og nú hefst biðin eftir París 2024.