[sam_zone id=1]

Þægilegur sigur HK í Digranesi

HK mætti Þrótti Vogum í úrvalsdeild karla í kvöld en leikurinn fór fram í Digranesi.

HK hefur byrjað tímabilið nokkuð vel og unnið 3-0 sigra gegn Fylki og Vestra. Þróttur Vogum hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum en það var þó gegn liðum Hamars og KA. HK var því mun sigurstranglegri aðilinn í kvöld og byrjaði leikinn vel. Þeir sigu smám saman fram úr í fyrstu hrinunni og unnu hana 25-18.

Heimamenn gátu leyft sér að dreifa álaginu vel og það kom ekki að sök því liðið vann enn stærri sigur í annarri hrinu leiksins, 25-12. Síðustu hrinuna unnu HK-ingar svo 25-17 og leikinn þar með 3-0. HK hefur því unnið fyrstu níu hrinur sínar á mótinu og er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki en Þróttur Vogum á enn eftir að vinna sitt fyrsta stig.

Markús Ingi Matthíasson var stigahæstur í liði HK með 11 stig en næstur kom Kristófer Björn Ólason Proppé með sex stig. Í liði Þróttar Vogum var Damian Moszyk stigahæstur með 10 stig og Pawel Gotthardt bætti við fimm stigum.

Næsti leikur HK verður einnig á heimavelli en þá mætir liðið KA. Liðin hafa undanfarin ár átt hörkuleiki og verður spennandi að sjá hvað gerist í Digranesi næsta laugardag. Þróttur Vogum mætir Fylki næsta sunnudag og fer sá leikur fram í Fylkishöllinni.

Mynd : Þorsteinn Gunnar Guðnason