[sam_zone id=1]

Þægilegur heimasigur í Mosfellsbæ

Einn leikur fór fram í úrvalsdeild karla í kvöld en þar mættust Afturelding og Þróttur Vogum í Mosfellsbæ.

Nokkuð langt hlé var gert á deildinni í október og byrjun nóvember vegna keppnisferða unglingalandsliðanna en nú eru úrvalsdeildirnar að fara á fullt aftur. Fjölmargir leikir fara fram næstu helgi en í kvöld fékk Afturelding lið Þróttar Vogum í heimsókn. Fyrirfram var búist við sannfærandi sigri Aftureldingar en Þróttur Vogum hefur enn ekki náð í sigur á sínu öðru tímabili í efstu deild.

Eins og við var að búast var Afturelding mun sterkari aðilinn í fyrstu hrinu og stakk af um miðja hrinuna. Afturelding vann 25-12 sigur og hélt uppteknum hætti í annarri hrinu. Aftur var munurinn ansi mikill en Þróttarar komust betur á strik í seinni hluta hrinunnar. Afturelding vann þó öruggan 25-16 sigur og leiddi 2-0.

Í þriðju hrinu leiksins jók Afturelding smám saman forystu sína og var sigur þeirra aldrei í hættu. Afturelding vann þriðju hrinu 25-16 og leikinn þar með 3-0. Mosfellingar eru nú með 12 stig eftir 7 leiki og sitja í 4. sæti deildarinnar. Hvorki Afturelding né Þróttur Vogum á leik um helgina en alls fara fram fimm leikir karlamegin og fjórir kvennamegin. Það verður því nóg um að vera næstu daga og verður leikið nokkuð þétt fram í desember.