[sam_zone id=1]

Þægilegur heimasigur HK í fyrsta leik

HK tók í kvöld á móti Þrótti Vogum í Mizunodeild karla en leikurinn var sá fyrsti hjá HK í deildinni.

HK-ingar mæta til leiks með svipað lið og á síðasta tímabili en eina breytingin á byrjunarliðinu er sú að Mateusz Klóska, sem kom frá Vestra, tekur sæti Valens Torfa sem hélt til Danmerkur. Þróttur Vogum mætti Aftureldingu í fyrsta leik sínum og tapaði þar 3-0, þrátt fyrir mikla spennu í lokahrinunni.

HK byrjaði leik kvöldsins af krafti og náði strax afgerandi forystu. Heimamenn unnu fyrstu hrinu 25-12 og gátu leyft sér að spila á öllum leikmönnum hópsins. Þróttarar náðu sér töluvert betur á strik í annarri hrinu en HK vann hana þrátt fyrir það, 25-21. Í þriðju hrinunni setti HK aftur í fluggírinn og vann þægilegan 25-11 sigur. Liðið vann leikinn þar með 3-0 og byrjar tímabilið af krafti.

Elvar Örn Halldórsson var stigahæstur í liði HK með 12 stig en Damian Moszyk skoraði 9 stig fyrir Þrótt Vogum. Næsti leikur HK er útileikur gegn Álftanesi þann 3. október næstkomandi en Þróttur Vogum mætir KA þann 11. október í Vogabæjarhöllinni.