[sam_zone id=1]

Þægilegt hjá Hamri og Aftureldingu

Í Mizunodeild karla fóru tveir leikir fram í dag, annar í Árbænum og hinn í Hveragerði.

Fylkir mætti Aftureldingu á heimavelli sínum í Árbæ og stefndi á sinn fyrsta sigur. Afturelding hefur þó leikið nokkuð vel eftir komu Nicolas Toselli og voru gestirnir sigrustranglegri. Það kom því ekki á óvart að Afturelding byrjaði af krafti og hafði strax um miðja hrinu náð afgerandi forystu. Þeir unnu fyrstu hrinuna 16-25 og leiddu 0-1. Aftur byrjuðu gestirnir vel í annarri hrinu en Fylkismenn voru þó ekki langt undan. Eins og svo oft áður missti Fylkir taktinn eftir fínan fyrri hluta og Afturelding vann auðveldan sigur, 14-25.

Loks náði Fylkir forystunni í þriðju hrinu og Afturelding þurfti að taka leikhlé í stöðunni 5-2. Eftir þessa flottu byrjun heimamanna tóku gestirnir völdin og unnu afar sannfærandi 0-3 sigur með því að vinna þriðju hrinuna 12-25. Bjarki Benediktsson var stigahæstur hjá Fylki með 6 stig og Arnór Snær Guðmundsson skoraði 5 stig. Hjá Aftureldingu var Nicolas Toselli stigahæstur með 13 stig og Sigþór Helgason kom næstur með 10 stig.

Afturelding komst upp í 5. sæti deildarinnar með sigrinum en lið deildarinnar hafa spilað mismarga leiki og eru hlutirnir því fljótir að breytast. Fylkir er enn án stiga og situr í næstneðsta sæti deildarinnar, rétt fyrir ofan Þrótt Vogum. Næsti leikur Fylkis verður útileikur gegn KA þann 19. febrúar næstkomandi en Afturelding á heimaleik gegn Þrótti Vogum 24. febrúar.

Í Hveragerði mætti topplið Hamars þunnskipuðu liði Vestra. Ísfirðingar hafa farið ágætlega af stað á tímabilinu en voru einungis með sjö leikmenn á skýrslu í þessum leik, líkt og gegn Þrótti Vogum á föstudag. Hamar stillti hins vegar upp sínu sterkasta liði og var afar sannfærandi. Munurinn varð mestur 13 stig í fyrstu hrinu og vann Hamar auðveldlega, 25-15. Gestirnir vöknuðu aðeins til lífsins í næstu hrinu og héldu í við Hvergerðinga þangað til allt fór á hliðina um miðja hrinu. Hamar skoraði 9 af síðustu 11 stigum hrinunnar og vann 25-14.

Líkt og í annarri hrinunni gekk Vestra nokkuð vel að halda í við Hamar í þeirri þriðju. Þeir náðu 12-15 forystu og Hamar tók sitt fyrsta leikhlé í leiknum. Vestri lét það þó ekki stoppa sig og nýtti sér örlítið kæruleysi í liði Hamars. Heimamenn náðu að þjarma að þeim undir lok hrinunnar og þá voru það helst tvíburarnir Kristján og Hafsteinn sem skoruðu grimmt á miðjunni. Bæði lið gerðu vel í hávörn undir lok hrinunnar en eftir upphækkun vann Hamar 26-24 og tryggði sér 3-0 sigur.

Hamar er enn með fullt hús stiga eftir 9 leiki og er á toppi deildarinnar, 4 stigum á undan liði HK. Vestri er í 6. sæti deildarinnar í þéttum pakka um miðja deild. Þeir hafa þó aðeins spilað 6 leiki gegn sjö leikjum Aftureldingar og 9 leikjum Þróttar Fjarðabyggð.

Mynd : Iza Radecka