[sam_zone id=1]

Þægilegt fyrir KA gegn Þrótti R

Þróttur Reykjavík tók á móti KA í Mizunodeild kvenna í íþróttahúsi Kennaraháskólans í dag.

KA stúlkur byrjuðu leikinn mun betur og komust í 6-0. Þróttarar náðu að minnka muninn í 2 stig í 5-7, en þá tóku gestirnir aftur á rás og með öflugum sóknarleik og fáum mistökum unnu þær hrinuna 25-15.

Aðeins meira líf og spenna var í annari hrinu, en Þróttarar eltu megnið af hrinunni þó jafnt hafi verið á nokkrum tölum. Eftir að jafnt var í 20-20 komst Paula Del Olmo Gomez í ham og skoraði 4 sóknarstig fyrir KA, sem vann hrinuna 25-22.

Þróttarar byrjuðu þriðju hrinu betur og komust í 4-1. Gestirnir tóku það ekki í mál, jöfnuðu og komust yfir. KA liðið sýndi mikla yfirburði í hrinunni og Þróttarar höfðu lítið um það mál að segja. KA vann þriðju hrinu 25-13 og þar með leikinn 3-0.

KA styrkir stöðu sína á toppnum eftir sigurinn og er með 31 stig eftir 12 leiki. Þróttarar eru í 4. sæti með 13 stig eftir 11 leiki.

Hjá KA var Paula Del Olmo Gomez stigahæst með 13 stig og Helena Kristín Gunnarsdóttir með 9. Eldey Hrafnsdóttir var stigahæst heimakvenna með 10 stig.