[sam_zone id=1]

Tap gegn sterku dönsku liði

Stúlknaliðið íslenska lék einnig fyrir hádegi í dag en þá mættu þær liði Danmerkur.

Stelpurnar mættu sterku liði Danmerkur í fyrri leik sínum í dag en Danirnir byrjuðu afar vel. Íslenska liðið náði þó að halda í við þær stærstan hluta fyrstu hrinu sem lauk með 25-17 sigri þeirra dönsku. Önnur hrinan byrjaði brösuglega en eftir því sem leið á hrinuna komst íslenska liðið betur inn í leikinn. Munurinn reyndist of mikill þrátt fyrir mun betra spil eftir miðbik hrinu og Danir unnu 25-20.

Þriðja hrinan var sú langbesta hjá Íslandi en þær leiddu 8-11 eftir frábæran kafla í byrjun hrinu. Áfram gekk vel framan af hrinu en undir lokin reyndust þær dönsku sterkari og unnu þær að lokum 25-19 sigur og leikinn þar með 3-0. Ágætis spil hjá íslenska liðinu en danska liðið gerði afar vel og erfitt að halda í við þær í dag.

Íslensku stelpurnar mæta Færeyjum í lokaleik dagsins en hann hefst klukkan 15:00 á íslenskum tíma. Úrslitin úr þeim leik virðast ekki skipta miklu máli þar sem að Ísland og Færeyjar geta ekki náð efstu þremur sætunum. Þau munu því mætast sem 4. og 5. sæti snemma í fyrramálið. Þar fær sigurvegarinn möguleika á að leika um bronsið. Stelpurnar munu þó eflaust leggja sig allar fram enda sjaldan sem íslensku liðin fá að spreyta sig erlendis og um að gera að nýta tækifærið til fulls.