[sam_zone id=1]

Sumarblíða á Þingeyri

Annað stigamót sumarsins fór fram á Þingeyri um helgina þar sem keppt var í alls sjö deildum.

Strandblaksmótaröð BLÍ hélt áfram um helgina þar sem annað stigamót sumarsins fór fram á Þingeyri. Veðrið lék við keppendur og áhorfendur um helgina og var frábær stemning fyrir vestan.

Í efstu deild kvenna stóðu Matthildur Einarsdóttir og Sara Ósk Stefánsdóttir uppi sem sigurvegarar annað mótið í röð en þær unnu fjögur af fimm mótum síðasta sumars sem og fyrsta mót þessa sumars. Daniela Grétarsdóttir og Velina Apostolova voru í öðru sæti en Rósa Dögg Ægisdóttir og Þórdís Guðmundsdóttir í því þriðja. Alls var leikið í fjórum deildum kvennamegin og má sjá frekari úrslit á stigakerfi BLÍ.

Karlamegin voru það Bjarki Benediktsson og Kári Hlynsson sem unnu eftir hnífjafna úrslitaleik gegn þeim Damian Moszyk og Nick Seiler. Í þriðja sæti voru svo Piotr Kempisty og Eiríkur R. Eiríksson. Alls voru þrjár karladeildir og frekar úrslit má finna á fyrrnefndu stigakerfi Blaksambandsins.

Verðlaunahafar í 1. deild karla

Sandkastalinn, sem opnaði í síðustu viku, var með gjafaleik á mótinu um helgina og fengu fjórir heppnir aðilar prufutíma hjá Sandkastalanum. Aðstaðan hjá þeim mun gera strandblaksiðkun mun aðgengilegri hér á Íslandi og þá sérstaklega yfir þá mánuði þar sem ekki er hægt að stunda strandblakið utandyra.