[sam_zone id=1]

Stúlkurnar leika um bronsið

Síðasti keppnisdagurinn á NEVZA U19 er í dag og íslensku stelpurnar hófu leik í morgun.

Leikið er afar þétt á mótinu líkt og öðrum NEVZA mótum og eldsnemma í morgun mætti íslenska stúlknaliðið Færeyjum í umspilsleik. Sigurliðið myndi mæta Danmörku í bronsleiknum svo það var að miklu að vinna. Leikurinn byrjaði þó ekki vel hjá íslenska liðinu sem átti í erfiðleikum í fyrstu hrinunni og tapaði henni 25-20. Eftir það var allt annað að sjá til liðsins og náðu stelpurnar sér mun betur á strik.

Frábær byrjun í annarri hrinu gaf Íslandi þægilegt forskot en restin af hrinunni var nokkuð sveiflukennd. Að lokum vann Ísland 22-25 eftir mikla spennu en þær gerðu enn betur í þriðju hrinu. Þar náði forystan tveggja stafa tölu um miðja hrinuna og vann Ísland 19-25 þrátt fyrir að færeyska liðið hafi náð að laga stöðuna örlítið undir lokin.

Aftur kom góð byrjun íslenska liðinu á bragðið í fjórðu hrinu og þær héldu nokkurra stiga forystu út alla hrinuna. Þær unnu 21-25 sigur og unnu leikinn þar með 1-3. Ísland leikur því um bronsið seinna í dag og hefst sá leikur klukkan 11:30 á íslenskum tíma. Drengjaliðið leikur um 5.-6. sæti og er fyrsta hrina hálfnuð þegar þessi frétt er skrifuð. Streymi má finna með því að smella hér.