[sam_zone id=1]

Stórlið Rússlands í vandræðum á EM

Evrópumót karla er komið vel á veg og eru línur farnar að skýrast í flestum riðlum.

Um helgina voru Evrópumeistarar krýndir í kvennaflokki þegar Ítalía tryggði sér Evrópumeistaratitilinn árið 2021 með glæstum sigri á sterku liði Serbíu. Þá er um að gera að færa sig yfir í karlaflokkinn þar sem að riðlakeppnin er rúmlega hálfnuð. Fyrstu leikir fóru fram þann 1. september en síðustu leikirnir í riðlunum fara fram þann 9. september.

Riðlarnir eru fjórir talsins og eru sex lið í hverjum þeirra. Fjögur lið fara áfram úr hverjum riðli og í kjölfarið hefjast 16-liða úrslit keppninnar. Það eru því aðeins tvö lið sem detta út í hverjum riðli og mikil barátta um 4.-6. sæti. Almennt hafa eitt eða tvö lið nokkra yfirburði í hverjum riðli en það þýðir samt að hin fjögur liðin þurfi að berjast um aðeins tvö laus sæti.

Nú þegar hafa sex lið tryggt sæti sitt í 16-liða úrslitum mótsins og það eru því 10 sæti enn í boði. Hægt er að fylgjast með öllum leikjum Evrópumótsins á streymissíðu CEV en hana má finna með því að smella hér.

A-riðill

Lítið hefur verið um óvænt úrslit í A-riðlinum en þar standa Pólverjar og Serbar vel að vígi. Bæði lið eru nú þegar komin áfram í 16-liða úrslitin en Úkraína, Belgía og Portúgal berjast um hin tvö sætin í útsláttarkeppninni. Grikkland situr á botninum og þykir ekki líklegt til afreka.

B-riðill

Ítalía hefur leikið frábærlega þrátt fyrir að mæta til leiks með afar ungt og mikið breytt lið. Þeir hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa og eru eina liðið í B-riðli sem er öruggt í 16-liða úrslitin. Slóvenía og Búlgaría eru í 2. og 3. sætinu en Tékkland og Hvíta-Rússland koma þar skammt á eftir. Svartfjallaland hefur tapað öllum þremur leikjum sínum og þarf á kraftaverki að halda til að komast áfram.

C-riðill

Afar óvænt úrslit urðu strax á öðrum keppnisdegi þegar Tyrkland og Rússland mættust í fyrsta leik liðanna á mótinu. Rússar komu ekki til leiks með fullskipað lið en voru þó taldir sigurstranglegastir í riðlinum. Tyrkir skelltu þeim strax í fyrsta leik og tryggðu sér svo sæti í 16-liða úrslitunum með því að vinna næstu tvo leiki til viðbótar. Holland hafði einnig tryggt sitt sæti í útsláttarkepninni eftir þrjá leiki en Finnland og Rússland komu þar á eftir.

Heimamenn í Finnlandi og stórlið Rússa geta þó andað nokkuð létt þar sem að botnliðin tvö, Spánn og Norður-Makedónía, virðast ekki í sama gæðaflokki og hin liðin fjögur.

D-riðill

Ólympíumeistarar Frakka voru í sviðsljósinu í D-riðli og þeir fóru nokkuð létt með sína leiki í riðlinum. Þjóðverjar byrjuðu einnig afar vel og unnu fyrstu tvo leiki sína sannfærandi áður en þeir töpuðu gegn þeim frönsku. Frakkland hefur nú þegar tryggt sitt sæti í 16-liða úrslitunum og mun Þýskaland væntanlega tryggja sitt sæti eftir næsta leik gegn Lettlandi. Þeir lettnesku hafa þó komið skemmtilega á óvart og eru í ágætri stöðu í annars jöfnum riðli.

Liðin í 3.-6. sæti hafa öll unnið einn leik og tapað tveimur en stigafjöldi þeirra er hins vegar nokkuð mismunandi. Lettland stendur best að vígi með fimm stig en Slóvakía er með þrjú stig, einu stigi á undan liðum Eistlands og Króatíu.