[sam_zone id=1]

Stefán Gunnar til Marienlyst

Íslendingaliðið Marienlyst fær enn frekari liðsstyrk frá Íslandi í janúar þegar Stefán Gunnar Þorsteinsson gengur til liðs við danska félagið.

Lið Marienlyst-Fortuna í dönsku úrvalsdeildinni hefur í gegnum tíðina haft nokkra íslenska leikmenn innanborðs og í dag leika tveir Íslendingar með liðinu. Það eru þeir Ævarr Freyr Birgisson og Galdur Máni Davíðsson. Í janúar bætist svo enn einn Íslendingurinn við í hópinn en Stefán Gunnar Þorsteinsson mun koma til liðs við félagið frá uppeldisfélagi sínu á Íslandi, liði HK. Eins og staðan er í dag situr lið Marienlyst-Fortuna í 3. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.

Stefán Gunnar hefur leikið með liði HK undanfarinn áratug ef frá er talið stutt stopp hjá liði Sindra á Höfn í Hornafirði. Hann leikur sem kantsmassari en er einnig öflugur frelsingi. Hann kemur einmitt til með að leysa stöðu frelsingja hjá danska liðinu og mun því styðja Ævarr Frey í móttöku Marienlyst-Fortuna.

Það er afar ánægjulegt að sjá fleiri íslenska leikmenn halda út í sterkari deildir og óska Blakfréttir Stefáni góðs gengis á nýju ári.