[sam_zone id=1]

Staðan í Danmörku

Þrír íslendingar leika í Danmörku þetta tímabilið, þeir Galdur Máni Davíðsson og Ævarr Freyr Birgisson í úrvalsdeildinni með Boldklubben Marienlyst og Valens Torfi Ingimundarson með Ikast KFUM í 1. deildinni.

Marienlyst 2019-2020

COVID-19 hefur sett strik í reikninginn í blakheiminum í Danmörku líkt og á Íslandi og fékk einungis úrvalsdeildin leyfi til að halda leik áfram eftir að íþróttalíf var lagt niður þann 25. október síðastliðinn.

Þetta þýddi að Valens og Ikast fengu ekki leyfi til að spila sína leiki en þeir eru á toppi vesturhluta 1. deildarinnar með fullt hús stiga eftir 2 leiki. Þeir tóku einnig þátt í bikarkeppninni en duttu úr leik í 16 liða úrslitum gegn úrvalsdeildarliði ASV Elite.

Galdur og Ævarr fengu hins vegar leyfi til að halda leik áfram og er búið að vera nóg um að vera hjá þeim undanfarið. Marienlyst er á toppi deildarinnar með 11 stig eftir 5 leiki en liðin í öðru og þriðja sæti geta þó náð þeim með góðum úrslitum í næstu leikjum. Þeir eru einnig komnir áfram í 8 liða úrslit bikarsins eftir sigur á 1. deildar liði ASV Aarhus en þar bíður þeirra erfiður leikur gegn nágrönnunum frá Middelfart.