[sam_zone id=1]

Slóvenía í úrslit á kostnað Pólverja

Undanúrslitin á EM karla fóru fram í dag en báðir leikirnir voru spilaðir í stórglæsilegri höll í Katowice, Póllandi.

Fyrri leikur undanúrslitanna var viðureign Póllands og Slóveníu en í seinni leiknum mættust Serbía og Ítalía. Serbía og Pólland eru tvö þeirra liða sem voru hvað líklegust til afreka á mótinu þegar spáð var í spilin fyrir upphaf mótsins. Ítalía og Slóvenía voru hins vegar ekki talin meðal sterkustu liða en hafa spilað frábærlega það sem af er móti.

Pólland hóf leikinn gegn Slóveníu afar vel og vann fyrstu hrinu sannfærandi, 25-17. Næsta hrina var heldur jafnari og þurfti gríðarlanga upphækkun til að útkljá sigurvegara. Slóvenía náði að kreista fram 30-32 sigur og jafnaði leikinn því 1-1. Þá var komið að Slóveníu að pakka heimamönnum saman en Slóvenía vann þriðju hrinuna 16-25 og var í frábærri stöðu gegn stórliði Pólverja.

Fjórða hrinan var hreint út sagt mögnuð og þurfti enn frekari upphækun en í annarri hrinunni. Að lokum voru það Slóvenar sem unnu 35-37 sigur og unnu leikinn því 1-3. Þetta er fjórða Evrópumótið í röð sem Slóvenía slær Pólland úr leik og þarf pólska liðið því að bíða enn lengur eftir titlinum sem þeir hafa ekki náð í síðan 2009 þegar þeir unnu eina Evrópumeistaratitil sinn. Þeir eiga hins vegar þrenn bronsverðlaun og geta bætt þeim fjórðu við á morgun.

Serbar og Ítalir áttust við í kjölfar þessa frábæra leiks og þar voru það Serbarnir sem byrjuðu betur. Þeir höfðu naumt forskot nánast alla fyrstu hrinuna en Ítalir jöfnuðu leikinn undir lok hrinu. Þeir stálu svo 27-29 sigri og leiddu 0-1. Ítalir bættu enn í með því að vinna aðra hrinu 22-25 og voru óvænt komnir í 0-2 forystu.

Serbía náði að koma sér aftur inn í leikinn með því að vinna þriðju hrinuna 25-23 og var gífurleg spenna í öllum þremur hrinum. Fjórða hrinan var hins vegar eign ítalska liðsins sem vann því glæsilegan 1-3 sigur og er komið alla leið í úrslitaleikinn. Afar óvænt hjá ungu og óreyndu liði Ítalíu.

Bronsleikurinn hefst klukkan 15:30 á morgun en í kjölfar hans fer úrslitaleikurinn fram. Úrslitin eru sett klukkan 18:30 og ætti því að vera nægur tími milli leikja svo að sú tímasetning standist.

Úrslit dagsins

Pólland 1-3 Slóvenía (25-17, 32-30, 16-25, 35-37). Wilfredo Leon skoraði 20 stig fyrir Pólland en næstir komu Bartosz Kurek og Jakub Kochanowski með 12 stig hvor. Toncek Stern skoraði sömuleiðis 20 stig fyrir Slóveníu en Klemen Cebulj skoraði 17 stig og Tine Urnaut bætti við 15 stigum.

Serbía 1-3 Ítalía (27-29, 22-25, 25-23, 18-25). Uros Kovacevic var stigahæstur í liði Serbíu með 16 stig en Marko Podrascanin kom næstur með 13 stig. Alessandro Michieletto var magnaður sem fyrr og skoraði 23 stig fyrir Ítalíu en Giulio Pinali bætti við 17 stigum.