[sam_zone id=1]

Sigur hjá KA eftir oddahrinu

Keppni í úrvalsdeild karla hófst í kvöld þegar KA tók á móti Þrótti Fjarðabyggð á Akureyri.

Bæði þessi lið eru með mikið breytta leikmannahópa frá síðasta tímabili og var því ómögulegt að segja til um líkleg úrslit leiksins. Í liði KA mætti helst nefna þá Filip Szewczyk og André Collins sem leika ekki með liðinu í ár en Filip hefur stýrt spili KA undanfarinn áratug og rúmlega það. Í liði Þróttar komu þrír spænskir leikmenn fyrir þetta tímabil en fyrir var Miguel Angel Ramos Melero sem er lykilmaður í liðinu.

Gestirnir í Þrótti byrjuðu vel í fyrstu hrinu en lið KA komst fljótlega betur inn í leikinn. KA reyndist sterkari aðilinn eftir upphaf hrinunnar og vann 25-22 sigur. Í annarri hrinu snerist dæmið nokkurn veginn við en þá byrjuðu heimamenn í KA betur. Þróttarar höfðu hins vegar mikla yfirburði eftir miðbik hrinunnar og jöfnuðu leikinn með sannfærandi 18-25 sigri í annarri hrinunni.

Enn sveiflaðist forystan til í þriðju hrinu en KA tók snemma völdin. Ekki leið á löngu þar til Þróttur hafði jafnað leikinn og virtist lokakaflinn ætla að verða æsispennandi. KA tók það ekki í mál og fimm stig í röð fóru langt með að tryggja þeim sigurinn. Þróttur skoraði hins vegar fjögur stig í röð í kjölfarið og jafnaði 24-24. Lokakaflinn reyndist því spennandi þrátt fyrir þessar miklu sveiflur en að lokum vann Þróttur Fjarðabyggð 25-27 sigur og leiddi 1-2.

Fjórða hrinan var lengst af í höndum KA sem hafði þægilegt forskot stærstan hluta hrinunnar. Þrátt fyrir ágætis endurkomu hjá Þrótti undir lokin vann KA auðveldan 25-19 sigur og sendi leikinn í oddahrinu. Þróttur byrjaði mun betur í oddahrinunni en KA fór á flug eftir erfiða byrjun. Spennustigið var hátt undir lok leiks en það var lið KA sem kreisti fram 15-12 sigur og vann leikinn þar með 3-2.

Samkvæmt tölfræði frá KA TV var Oscar Fernandez Celis stigahæstur í liði KA með 27 stig en Miguel Mateo Castrillo kom næstur með 18 stig. Miguel Angel Ramos Melero skoraði 16 stig fyrir Þrótt Fjarðabyggð og Andri Snær Sigurjónsson bætti við 10 stigum.