[sam_zone id=1]

Sex gull í röð

Danska mótaröðin í strandblakinu hélt áfram um helgina en Berglind og Elísabet komu af krafti inn í mótið.

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir hafa verið gjörsamlega óstöðvandi síðustu vikur en fyrir helgina höfðu þær unnið öll fimm mótin til þessa á tímabilinu. Þar af voru fjögur mót í Danmörku og eitt alþjóðlegt mót í Skotlandi. Þessa helgina var svo komið að Kolding Master þar sem að stelpurnar fóru afar vel af stað og unnu báða leiki sína á laugardag. Fyrri leikinn unnu þær auðveldlega gegn Lyngholm/Skov en seinni leikur laugardagsins var jafnari.

Þar mættu stelpurnar þeim Tyndeskov/Jensen og töpuðu fyrstu hrinu 17-21. Eftir það höfðu Berglind og Elísabet þó góð tök á leiknum og unnu næstu tvær hrinur þægilega, 21-11 og 15-9. Þar með voru stelpurnar komnar í undanúrslit þar sem þær mættu Kjærgaard/Hansen snemma á sunnudag.

Undanúrslitaleikurinn olli stelpunum ekki miklum vandræðum en þær unnu góðan 2-0 sigur, 21-11 og 21-18. Í úrslitaleiknum sjálfum mættu Berglind og Elísabet svo æfingafélögum sínum frá Odense, þeim Line Trans Hansen og Astrid Mellmølle. Sá leikur var sá mest spennandi á mótinu en stelpurnar töpuðu fyrstu hrinu 17-21 en tryggðu sér oddahrinu með 24-22 sigri í annarri hrinu. Oddahrinan var svo einnig æsispennandi en lauk með 15-13 sigri Berglindar og Elísabetar.

Stelpurnar hafa því unnið öll sex mótin sem þær hafa tekið þátt í þetta sumarið og verða sigrarnir vonandi enn fleiri þegar líður á sumarið. Um miðjan júlí halda þær svo til Belgíu og taka þátt í World Tour móti.