[sam_zone id=1]

Sérfræðingar spá í spilin fyrir helgina

Nú þegar stærsta blakhelgi ársins er framundan sjálf bikarhelgin ákváðum við hér á blakfréttum að hita aðeins upp fyrir helgina.
Við fengum nokkra valinkunna einstaklinga til að spá fyrir um undanúrslitin og síðan úrslitaleikina sjálfa á sunnudaginn.

Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður á RÚV

Kvk:

KA – Völsungur 3-0: KA fá fínan upphitunarleik fyrir úrslitin og sigla afar þægilega í gegnum þennan leik. Vel gert hjá Völlurum að koma sér í höllina samt.

HK – UMFA 1-3: Þetta verður fjögurra hrinu mjög jafn leikur. Liðin hafa unnið til skiptis í deildinni en ég hugsa að þessi leikur verði jafnari en þeir báðir.

KA-UMFA úrslit 2-3: Spennandi viðureign í ljósi þess að allt fór í baklás hjá Aftureldingarkonum þegar allt stefndi í að þær myndu vinna síðustu viðureign liðanna 3-0 kósý. Taka þetta á seiglunni í oddahrinu og bikarinn fer upp í Mosó.

Kk:

Vestri – Hamar 0-3: Elska að sjá þennan leik í undanúrslitum, eitthvað sem maður hefði seint getað giskað á fyrir 2-3 árum. Hamar er bara að spila í annarri deild en aðrir og það breytist lítið þessa helgina.

HK – UMFA 2-3: Þetta verður að öllum líkindum einn af betri leikjum helgarinnar. Alvöru skilaboð sem Afturelding sendi með 3-0 sigri á KA um síðustu helgi. Ef Afturelding verst og berjast eins og þeir gerðu þá ættu þeir að hafa HK-inga.

Hamar – UMFA 3-1: Óvænt þá tapar Hamar fyrstu hrinunni en þá taka þeir til sinna mála og rúlla upp næstu þremur og dollan í Hveragerði þar sem verður blys og flugeldasýning niður kambana.

Hulda Elma Eysteinsdóttir, fyrrverandi landsliðsmaður í blaki

Skemmtilegasta helgi ársins í íslenskum blakheimi að ganga í garð og ég er því miður ekki að fara að taka þátt í henni þetta árið en sendi dóttur mína Amelíu Ýr Sigurðardóttir í minn stað. Ég býð spennt eftir því að fylgjast með útsendingum.
Ef við byrjum á konunum og þá mínu uppáhalds liði þá geri ég ráð fyrir því að mínar konur í KA fari með nokkuð öruggan sigur á Völsung í undanúrslitum. HK mun fá hörkuleik á móti Aftureldingu en mun fara með sigur 3-1.
Í úrslitum munu því KA og HK mætast og hef ég alla trú á að KA stelpur muni taka þann leik ef þær finna rétta andann því þær eru í góðu standi. Leikurinn mun enda 3-2 fyrir KA og mun Paula del Olmo eiga stórleik.

Þá að körlunum, þar geri ég ráð fyrir því að það sé formsatriði fyrir ógnarsterkt lið Hamars að mæta í undanúrslitin en þeir munu sigra Vestra 3-0.
HK mun aftur þurfa að hafa meira fyrir sæti sínu í úrslitum en ég ætla að skjóta á að þeir muni sigra Aftureldingu 3-2.
Vonandi munu HK veita Hamar mikla mótstöðu svo við fáum að sjá alvöru úrslitaleik en ég held að Hamar muni sigra leikinn 3-1. Góða skemmtun um helgina og gangi ykkur öllum vel.

Brynjar Júlíus Pétursson, þjálfari karlaliðs Fylkis

Karlameginn munu það verða Hamar og HK sem mætast í úrslitum en þau munu hafa betur gegn Vestra og Aftureldingu í sínum undanúrslitaviðureignum.
Hamar munu síðan vera sterkari í úrslitaleiknum og tryggja sér bikarinn.

Kvennameginn verða það síðan KA og Afturelding sem að munu hafa betur í sínum viðureignum gegn HK og Völsungi.
Afturelding munu síðan sína klærnar á sunnudaginn og hafa betur gegn KA í hörkuviðureign.

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í blaki

Hræðilegt að ekkert lið frá Þrótti Nes sé með, gerir val mitt talsvert erfiðara, en að spánni.

Hamar mun sigra Vestra í undanúrslitum og HK mun sigra Aftureldingu eftir hörkuleik. Það munu því verða Hamar og HK sem mætast í úrslitum og þar mun Hamar vinna og taka bikarinn með sér í Hveragerði.

Stelpurnar er erfiðara að segja það sem það er mikið jafnara í ár! Ég spái því að KA komist í úrslit og svo spái ég því að Afturelding vinni undanúrslitin gegn HK og fari þar með í úrslit. Þar spái ég því að Afturelding vinni einnig og taki því bikarinn í ár.

Ævarr Freyr Birgisson, landsliðsmaður í blaki

Karlar:

Undanúrslit:
Hamar – Vestri: Hamar tekur þennan leik nokkuð örugglega. Vestri gæti tekið eina hrinu en Hamar siglir nokkuð þægilega í úrslitaleikinn.

HK – Afturelding: Það verður töluvert meiri spenna í þessum leik. Síðasti leikur liðanna fór í 5 hrinur og kæmi mér ekki á óvart að þessi gerði það líka. HK vinnur 3-1 eða 3-2.

Úrslit:
Ef spáin mín fyrir undanúrslitunum reynist rétt mætast Hamar og HK í úrslitum en það eru einmitt tvö efstu lið deildarinnar. Ég vonast eftir spennuleik en ef Hamarsmenn lenda ekki í meiðslum eða veikindum held ég að þeir sigli sigrinum þægilega í höfn.

Konur:

Undanúrslit:
KA – Völsungur: Hver elskar ekki góðan grannaslag? Úrvalsdeildarlið KA tekur á móti toppliði 1. deildarinnar, Völsungi, sem tryggði sér miða í undanúrslitin með því að sigra úrvalsdeildarlið Álftaness í háspennuleik. Ég spái KA sigrinum en ég held að þær muni þurfa að hafa fyrir honum.

Afturelding – HK: HK er á toppi deildarinnar og hefur bara tapað einum leik enn sem komið er, en það var einimitt gegn Aftureldingu. Þann leik vann Afturelding nokkuð þægilega en eins og við vitum öll, þá er bikarinn ekki það sama og deildin. Ég spái Aftureldingu sigrinum en ég býst við mikilli spennu.

Úrslit: Ef ég hef rétt fyrir mér munu KA og Afturelding mætast í úrslitaleiknum. Liðin hafa leikið tvo fimm hrinu leiki í vetur og skipt með sér sigrunum. KA hjartað slær ávallt fast í mér svo það er erfitt að vera hlutlaus en ég verð að spá Aftureldingu sigri í spennandi leik. KA munu sakna Helenu Kristínar Gunnarsdóttur og munu Luz Medina og Thelma Dögg Grétarsdóttir vera í stóru hlutverki hjá Aftureldingu.

Við þökkum þeim kærlega fyrir þessa spá og vonumst eftir skemmtilegri bikarhelgi.