[sam_zone id=1]

Serbía fór létt með Ítalíu

Blakið er í fullu fjöri í Tókýó og lauk 8-liða úrslitunum í dag með leikjum kvennamegin.

Riðlakeppninni lauk á mánudag þegar konurnar kláruðu sína leiki og 8-liða úrslitin hófust strax á þriðjudag. Þá voru það karlarnir sem léku um sæti í undanúrslitum en kvennamegin var spilað í dag, miðvikudag. Alls fóru þrír af átta leikjum í oddahrinu en allir leikirnir buðu upp á mikil gæði og spennu.

8-liða úrslit karla

Afar áhugaverð úrslit urðu karlamegin en í fyrstu tveimur leikjunum vann rússneska liðið 3-0 sigur gegn Kanada í annars jöfnum leik og Brasilía vann eins 3-0 sigur gegn Japan. Seinni tveir leikirnir voru hins vegar hnífjafnir og æsispennandi og þurfti að grípa til oddahrinu í báðum leikjum. Argentína sló út Ítalíu og Frakkar unnu frábæran sigur gegn ríkjandi heimsmeisturum Pólverja. Öll liðin í undanúrslitum keppninnar koma því úr B-riðlinum sem sýnir hve öflugur hann var.

Wilfredo Leon nær ekki í verðlaun á sínum fyrstu Ólympíuleikum með Póllandi

Rússneska Ólympíusambandið (ROC) 3-0 Kanada (25-21, 30-28, 25-22). Dmitriy Volkov skoraði 15 stig fyrir ROC en næstur kom Maxim Mikhaylov með 14 stig. Hjá Kanada var John Gordon Perrin stigahæstur með 15 stig og Ryan Joseph Sclater bætti við 14 stigum.

Japan 0-3 Brasilía (20-25, 22-25, 20-25). Yuki Ishikawa var stigahæstur hjá Japan með 17 stig en Yuji Nishida kom næstur með 13 stig. Í liði Brasilíu var Yoandy Leal öflugur og skoraði 16 stig en Wallace de Souza skoraði 13 stig og Ricardo Lucarelli Souza bætti við 12 stigum til viðbótar.

Ítalía 2-3 Argentína (25-21, 23-25, 22-25, 25-14, 12-15). Osmany Juantorena skoraði 22 stig fyrir Ítalíu í sínum síðasta landsleik en næstur kom Alessandro Michieletto með 21 stig. Facundo Conte skoraði 19 stig fyrir Argentínu og Ezequiel Palacios bætti við 18 stigum.

Pólland 2-3 Frakkland (25-21, 22-25, 25-21, 21-25, 9-15). Wilfredo Leon og Bartosz Kurek fóru fyrir liði Póllands en Leon skoraði 29 stig og Kurek 26 stig. Hjá Frakklandi var Jean Patry stigahæstur með 21 stig en næstir komu Earvin N’Gapeth með 17 stig og Trevor Clevenot með 16 stig.

Undanúrslit karla

Fimmtudagur 04:00     Brasilía – Rússneska Ólympíusambandið (Bein útsending á RÚV)

Fimmtudagur 12:00     Frakkland – Argentína

8-liða úrslit kvenna

Fyrsti leikur 8-liða úrslitanna bauð upp á rosalega spennu en þar skellti Suður-Kórea sterku liði Tyrklands. Kim Yeon Koung fór eins og oft áður fyrir liði Suður-Kóreu sem er nú komið alla leið í undanúrslit. Bandaríkin fóru létt með Dóminíska lýðveldið í öðrum leiknum og Serbía skellti Ítalíu nú í morgunsárið. Fyrirfram héldu flestir að þetta yrði afar jöfn og spennandi viðureign en Serbía lék frábærlega og Ítalía átti engin svör við góðu spili Serbanna.

Fjórði og síðasti leikur 8-liða úrslitanna var viðureign tveggja stórvelda en þar mættust Brasilía og rússneska Ólympíusambandið. Rússneska liðið byrjaði afar vel og vann fyrstu hrinu en leikurinn var jafn og spennandi. Brasilía náði smám saman yfirhöndinni og fór svo að þær brasilísku unnu 3-1 sigur. Þær eru því enn taplausar á mótinu.

Serbar, sem eru ríkjandi heimsmeistarar og Evrópumeistarar í kvennaflokki, mæta Bandaríkjunum í undanúrslitum og ef þær ná fram sömu spilamennsku og gegn Ítalíu ættu þær að vera sigurstranglegasta lið mótsins. Brasilía vann gegn Serbíu í riðlakeppninni en það er aldrei að vita hvað gerist ef liðin mætast aftur í úrslitum.

Suður-Kórea 3-2 Tyrkland (17-25, 25-17, 28-26, 18-25, 15-13). Kim Yeon Koung var frábær hjá Suður-Kóreu og skoraði 28 stig en næst kom Park Jeongah með 16 stig. Hjá Tyrklandi var Meryem Boz stigahæst með 24 stig og Edda Erdem Dundar skoraði 15 stig.

Dóminíska lýðveldið 0-3 Bandaríkin (11-25, 20-25, 19-25). Brayelin Martínez var sú eina í liði Dóminíska lýðveldisins sem náði sér á strik í leik dagsins en hún skoraði 16 stig. Andrea Drews var öflug fyrir bandaríska liðið og skoraði 21 stig en næst kom Michelle Bartsch-Hackley með 13 stig.

Serbía 3-0 Ítalía (25-21, 25-14, 25-21). Tijana Boskovic fór á kostum og skoraði 24 stig fyrir Serbíu en næst kom Milena Rasic með 10 stig. Paola Egonu átti slæman dag og tókst þó að skora 16 stig fyrir ítalska liðið.

Brasilía 3-1 Rússneska Ólympíusambandið (23-25, 25-21, 25-19, 25-22). Gabi Guimares var stigahæst í liði Brasilíu með 18 stig en Caroline Gattaz og Rosamaria Montibeller skoruðu 16 stig hvor. Hin 17 ára gamla Arina Fedorovtseva var öflug í rússneska liðinu og skoraði 20 stig en næst kom Irina Voronkova með 18 stig.

Undanúrslit kvenna

Föstudagur 04:00    Serbía – Bandaríkin

Föstudagur 12:00    Brasilía – Suður-Kórea