[sam_zone id=1]

Sara Ósk og Elvar Örn bestu ungu leikmennirnir

Blakfréttir útnefna þau Elvar Örn Halldórsson og Söru Ósk Stefánsdóttur bestu ungu leikmenn Mizunodeildanna tímabilið 2019-20.

Í kjöri á vegum BLÍ voru efnilegustu leikmenn deildarinnar útnefndir en hjá Blakfréttum eru bestu ungu leikmennirnir útnefndir. Áherslur eru nánast þær sömu en Blakfréttir miða við leikmenn sem eru yngri en 20 ára. Leikmenn fæddir 2001 og seinna voru því gjaldgengir í kjörið.

Sara Ósk Stefánsdóttir og Elvar Örn Halldórsson, bæði úr HK, urðu fyrir valinu hjá Blakfréttum annað árið í röð en þau eru bæði fædd 2002 og verða því enn gjaldgeng í kjörið á næsta ári.

Mizunodeild kvenna – Sara Ósk Stefánsdóttir

Sara Ósk Stefánsdóttir er besti ungi leikmaður Mizunodeildar kvenna að mati Blakfrétta. Sara Ósk er miðjumaður í liði HK og er fædd árið 2002. Hún er öflugur alhliða leikmaður en Sara skoraði alls 126 stig í vetur og var stigahæsti leikmaður HK. Þá var hún næststigahæst í hávörn með 34 stig og skoraði 29 stig beint úr uppgjöf.

Sara Ósk var í Mizunoliði ársins í kjöri BLÍ sem var gert opinbert í síðustu viku.

Mizunodeild karla – Elvar Örn Halldórsson

Elvar Örn Halldórsson er besti ungi leikmaður Mizunodeildar karla að mati Blakfrétta. Elvar Örn er fæddur 2002 og leikur sem miðjumaður í liði HK. Hann braut sér leið inn í byrjunarliðið vorið 2019 og hefur verið fastamaður þar síðan. Elvar Örn var næststigahæsti leikmaður deildarinnar í hávörn með 39 stig og skoraði alls 132 stig sem gerði hann einnig að næststigahæsta leikmanni HK.

Auk þess að vera efnilegasti leikmaður Mizunodeildarinnar að mati Blakfrétta hlaut Elvar Örn sama titil í kjörinu á vegum BLÍ.