[sam_zone id=1]

Ross og Klineman tóku gullið

Keppni í strandblaki kvenna lauk í nótt þegar bæði bronsleikurinn og úrslitaleikurinn sjálfur fóru fram.

Strandblakskonurnar fengu ekki mikla hvíld en þær spiluðu til undanúrslita um það bil sólarhring áður en síðustu leikirnir fóru fram. Það virtist þó ekki trufla liðin stórkostlega enda mikið undir á þessum tímapunkti í mótinu. Bronsleikurinn var fyrri leikurinn og þar voru það Tina Graudina og Anastasija Kravcenoka frá Lettlandi sem mættu Anouk Vergé-Dépré og Joana Heidrich frá Sviss. Í úrslitaleiknum mættust svo Bandaríkin og Ástralía en fyrir Bandaríkin spila April Ross og Alix Klineman á meðan að Mariafe Artacho del Solar og Taliqua Clancey leika fyrir Ástralíu.

Bronsleikur kvenna

Bæði liðin sem léku til bronsverðlauna áttu nokkuð erfitt uppdráttar í undanúrslitaleikjum sínum og voru eflaust staðráðnar í að bæta leik sinn í dag. Anastasija Kravcenoka og Tina Graudina frá Lettlandi byrjuðu leikinn ágætlega en Anouk Vergé-Dépré og Joana Heidrich frá Sviss jöfnuðu fljótt og var hrinan í raun hnífjöfn. Þær svissnesku voru skrefi á undan og unnu að lokum 19-21 sigur í fyrstu hrinunni sem virtist gefa þeim mikið sjálfstraust fyrir framhaldið.

Joana og Anouk byrjuðu nefnilega frábærlega í annarri hrinunni og byggðu smám saman upp þægilegt forskot þegar leið á hrinuna. Þær áttu ekki í neinum vandræðum með þær lettnesku og unnu 15-21 sigur sem þýddi að þær unnu leikinn 0-2 og bronsverðlaunin voru þeirra. Tina og Anastasija þurfa því að bíða lengur eftir verðlaunum á Ólympíuleikum en eru báðar ungar og til alls líklegar í París 2024.

Úrslitaleikur kvenna

Lokaleikurinn á mótinu var sjálfur úrslitaleikurinn og var hann í beinni útsendingu á RÚV í nótt. April Ross og Alix Klineman hafa verið ógnarsterkar allt mótið og var spennandi að sjá hvort Mariafe Artacho del Solar og Taliqua Clancey gætu gert þeim erfitt fyrir. Fljótlega í fyrstu hrinunni var ljóst að þær bandarísku hefðu yfirhöndina en þær leiddu 2-7 í fyrstu hrinunni. Eftirleikurinn var nokkuð auðveldur og unnu þær sannfærandi 15-21 sigur í fyrstu hrinunni.

Áströlsku stelpurnar virtust vakna til lífsins í annarri hrinunni og komust 2-0 yfir. Þetta var hins vegar skammgóður vermir og Ross/Klineman skoruðu næstu 10 stigin, leiddu þar með 2-10 og var einungis formsatriði að klára aðra hrinuna. Það gerðu þær rátt fyrir ágætis kafla hjá Clancy/Solar um miðja hrinuna. Henni lauk með 16-21 sigri þeirra bandarísku sem unnu leikinn 0-2 og eru Ólympíumeistarar. April Ross á nú gull-, silfur- og bronsverðlaun frá Ólympíuleikunum en þetta eru fyrstu verðlaun Alix Klineman á Ólympíuleikum. Það sama má segja um þær áströlsku.

Keppni kvennamegin er því lokið en úrslitaleikurinn og bronsleikurinn karlamegin verða síðustu strandblaksleikirnir á þessum Ólympíuleikum. Karlarnir spila sína leiki næstu nótt, aðfaranótt laugardags.