[sam_zone id=1]

Öruggur sigur KA gegn Völsungi

Völsungur og KA mættust í dag í fyrri undanúrslitaleik Kjörísbikars kvenna.

Völsungur vann óvæntan sigur gegn Álftnesingum í 8-liða úrslitunum en KA vann Þrótt Fjarðabyggð. Lið KA var töluvert sigurstranglegra í leik dagsins og varð ljóst snemma leiks að getumunurinn var mikill. KA náði 10-1 forystu í fyrstu hrinunni og Völsungur náði sér aldrei á strik. KA vann hrinuna auðveldlega, 25-13. Allt annað var hins vegar að sjá liðið í annarri hrinu þar sem að Völsungur hélt í við KA.

KA var enn að spila nokkuð vel en Völsungur var yfirleitt 3-5 stigum á eftir. Spennan varði þó ekki alla hrinuna en undir lokin stakk KA af og vann sannfærandi, 25-16. Ótrúlegar tölur sáust í þriðju hrinunni þar sem að Völsungur átti engin svör við góðum uppgjöfum og hávörn hjá KA. KA náði 17-1 forystu og náði Völsungur að laga stöðuna örlítið undir lokin. KA vann hrinuna þó 25-7 og leikinn þar með 3-0.

Þær Paula Del Olmo Gomez og Mireia Orozco fóru fyrir liði KA líkt og í flestum leikjum liðsins en Paula skoraði 19 stig og Mireia bætti við 18 stigum. Hjá Völsungi var Tamara Kaposi-Peto stigahæst með 8 stig og Sigrún Marta Jónsdóttir skoraði 7 stig. Afturelding og HK mætast klukkan 20:00 í kvöld og eftir þann leik verður ljóst hver andstæðingur KA verður í úrslitaleiknum á sunnudag. Úrslitaleikir karla og kvenna verða sýndir í beinni útsendingu á RÚV á sunnudag.

Mynd : Egill Bjarni Friðjónsson