[sam_zone id=1]

Öruggur heimasigur í Digranesi

HK og Völsungur mættust í dag í fyrri leik liðanna þessa helgina.

Fyrir helgina hafði lið Völsungs aðeins spilað tvo leiki í úrvalsdeildinni þetta tímabilið og beið enn eftir fyrsta sigrinum. Þessa helgi voru hins vegar tveir leikir til viðbótar á dagskrá og báðir gegn HK í Digranesi. HK hafði spilað fimm leiki og var með 8 stig í 3. sæti deildarinnar en gat komist á toppinn með tveimur sigrum, þó eftir fleiri leiki en önnur lið.

HK byrjaði leikinn í dag af miklum krafti og var sannfærandi í fyrstu hrinunni. Völsungur náði að jafna um miðja hrinuna en hélt ekki út og HK vann 25-21.

Völsungur byrjaði frábærlega í annarri hrinu en það dugði skammt og HK vann öruggan 25-16 sigur þrátt fyrir að vera lengi í gang. Þriðja hrinan var hnífjöfn en heimakonur voru sterkari undir lokin og unnu 25-21 sem þýddi 3-0 sigur HK.

Lejla Sara Hadziredzepovic var stigahæst í liði HK með 12 stig en Kyisha Racole Hunt, nýr leikmaður Völsungs, skoraði 11 stig fyrir gestina.

Á morgun mætast liðin öðru sinni og hefst sá leikur klukkan 15:00 í Digranesi.

Mynd – A & R Photos