[sam_zone id=1]

Sigrar hjá toppliðunum kvennameginn, Álftanes vann karlameginn

Heil umferð fór fram í Mizunodeild kvenna í kvöld en þar voru það toppliðin þrjú sem mættu þremur neðstu liðum deildarinnar. Fyrirfram var ekki búist við mjög spennandi leikjum þar sem efstu þrjú liðin hafa skorið sig aðeins frá hinum.

HK tók á móti Þrótti R. í Fagralundi og var ljóst frá byrjun að HK voru staðráðnar að bæta upp fyrir tapið gegn Aftureldingu í síðasta leik. Þær mættu vel stemmdar í leikinn og átti Þróttur enga möguleika í leiknum sem fór 3-0 fyrir HK (25-14, 25-13, 25-17).
Stigahæst í liði HK var Michelle Traini með 18 stig en hjá Þrótti R. var Fjóla Rut atkvæðamest með 7 stig.

KA heimsótti Neskaupsstað  og mætti þar lið Þróttar frá Neskaupsstað, KA þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að halda í við toppliðin tvö í deildinni. Það fór heldur ekkert á milli mála í leiknum í kvöld hvort liðið ætlaði heim með þrjú stig þar sem KA stúlkur voru mun sterkari en Þróttur í leiknum og unnu 0-3 sigur (17-25, 13-25, 19-25).
Ekki er komin tölfræði úr leiknum.

Í síðasta leik umferðarinnar mættust Afturelding og Álftanes í Mosfellsbæ. Afturelding unnu góðan 3-0 sigur á HK í síðustu umferð og var búist við þægilegum sigri Aftureldingar í kvöld sem léku þó án Thelmu Daggar í kvöld.
Leikurinn byrjaði líka vel fyrir Aftureldingu sem unnu fyrstu tvær hrinurnar 25-17 og 25-11, þá hrökk hinsvegar allt í baklás hjá liðinu. Álftanes byrjaði að spila frábært blak og þær unnu næstu tvær hrinur 21-25 og 21-25 og tryggðu sér þar með oddahrinu. Afturelding voru hinsvegar of sterkar í oddahrinunni og unnu hana eftir mikla spennu 15-9.

HK eru því á toppnum eftir umferðina en Afturelding og KA fylgja fast á eftir. Álftanes fer stigi fyrir ofan Þrótt Nes á meðan Þróttur R situr á botninum með fjögur stig.

Í Mizunodeild karla fór fram einn leikur en þar mættust lið Þróttar Vogum og Álftanes.
Álftanes byrjaði leikinn í dag mun betur og unnu fyrstu tvær hrinurnar örugglega 13-25 og 12-25. Þróttur V. komu hinsvegar til baka í næstu hrinu sem var æsispennandi. Þar voru það að lokum Þróttur V. sem unnu hrinuna eftir upphækkun 26-24 og er þetta fyrsta hrinan sem Þróttur Vogum vinnur í efstu deild karla í blaki. Álftanes kom þó til baka í síðustu hrinunni og sigraði hana 15-25 og leikinn þar með 3-1.

Staða liðanna breytist ekkert þar sem Álftanes er enþá í sjöunda sætinu með 6 stig en Þróttur V. eru enþá stigalausir á botninum.