[sam_zone id=1]

Öflug endurkoma Þróttar F gegn Álftanesi

Það var nóg um að vera í úrvalsdeildunum í dag þegar fjórir leikir fóru fram.

Leikið var í úrvalsdeildum karla og kvenna í dag en alls fóru þrír leikir fram karlamegin og einn kvennamegin. Hjá körlunum var um að ræða tvíhöfða í tveimur tilvikum en Hamar tók á móti KA annan daginn í röð. Það sama átti við og Þrótt Vogum og Vestra sem mættust í Vogabæjarhöllinni. Þá mættust Fylkir og Afturelding í þriðja leik karladeildarinnar. Kvennamegin mættust Álftanes og Þróttur Fjarðabyggð, sömuleiðis var þar um að ræða seinni leik helgarinnar hjá liðunum.

Úrvalsdeild karla

Hamar – KA

Liðin mættust í gær í fyrri leik sínum þessa helgina en þar vann KA fyrstu hrinu áður en Hamar tók öll völd á vellinum. Leiknum lauk með 3-1 sigri Hvergerðinga sem höfðu ekki enn tapað stigi í úrvalsdeildinni.

Í dag héldu gestirnir frá Akureyri uppteknum hætti og gerðu afar vel í fyrstu hrinu. Hana unnu þeir á endanum 21-25 og annan daginn í röð leiddi KA 0-1. Hamar tók strax við sér og náði munurinn í annarri hrinu tveggja stafa tölu, Hamri í vil. KA minnkaði muninn mikið en Hamar vann þó 25-20 og jafnaði 1-1.

Í þriðju hrinu voru heimamenn einnig skrefi á undan og unnu 25-18 sigur sem gaf þeim forystuna í leiknum. Fjórða hrina var bráðskemmtileg og spennandi en hélt út og vann 25-23 sigur. Hamar vann því 3-1 líkt og í gær sem þýðir að þeir hirða öll sex stigin þessa helgina.

Hamar heldur því toppsætinu og fullu húsi stiga þrátt fyrir mikla spennu í leikjum helgarinnar. Lið Hamars virðist enn vera öflugasta lið deildarinnar en hefur þó ekki sömu yfirburði og á síðasta tímabili. Það verður því spennandi að sjá hvort þeir misstígi sig á næstunni í þessari jöfnu deild. KA er um miðja deild með 13 stig eftir 10 leiki.

Hamarsmenn halda austur í Neskaupstað næstu helgi og mæta liði Þróttar Fjarðabyggð laugardaginn 27. nóvember. Næsti leikur KA verður þeirra síðasti fyrir jólafrí en liðið fær Þrótt Fjarðabyggð í heimsókn þann 11. desember.

Þróttur Vogum – Vestri

Eftir auðveldan 0-3 sigur Vestra í gær var búist við svipuðum leik í dag hjá þessum liðum. Þróttarar gerðu hins vegar mun betur í dag og gáfu gestunum ekki mikið svigrúm. Vestri vann fyrstu hrinu leiksins 20-25 og vann svo aðeins þægilegri 17-25 sigur í annarri hrinunni. Þriðja hrinan varð æsispennandi en Vestri þurfti öfluga endurkomu undir lokin til að vinna 23-25 sigur og tryggja 0-3 sigur í leiknum.

Vestri vann því báða leiki helgarinnar 3-0 og sækir mikilvæg sex stig í Vogabæjarhöllina. Þar með er pakkinn í 2.-6. sæti orðinn ansi þéttur en aðeins munar þremur stigum á HK, sem situr í 2. sætinu, og liði Vestra sem er í 6. sæti. Liðin hafa spilað mismarga leiki en munurinn er engu að síður lítill á liðunum.

Þróttur Vogum fær ekki langa hvíld en liðið mætir HK á miðvikudagskvöld. Vestri fær öllu lengra frí þar sem að liðið er komið snemma í jólafrí. Næsti skráði leikur liðsins er þann 15. janúar gegn Aftureldingu en þó á eftir að finna tíma fyrir tvo frestaða leiki liðsins gegn Þrótti F sem ekki náðist að spila síðustu helgi.

Fylkir – Afturelding

Í Árbænum mættust Fylkir og Afturelding í síðasta leik dagsins. Þar byrjuðu gestirnir úr Mosfellsbæ mun betur og stungu af snemma í fyrstu hrinu. Hana unnu þeir 21-25 þrátt fyrir öflugan lokakafla Fylkismanna. Gangur leiksins var svipaður í annarri hrinu og hafði verið í þeirri fyrstu. Afturelding náði snemma þægilegu forskoti og vann öruggan 15-25 sigur. Afturelding leiddi því 0-2 og virtist ekki eiga í miklum vandræðum.

Þriðja hrina leiksins var jafnari en fyrstu tvær hrinurnar en Afturelding var þó skrefi á undan. Fylkir elti alla hrinuna og að lokum vann Afturelding 22-25. Mosfellingar unnu leikinn því 0-3 og fengu öll þrjú stigin. Sigurinn þýðir að Afturelding er nú með 15 stig í 3. sæti deildarinnar en Fylkir er enn með fjögur stig í sjöunda og næstneðsta sætinu. Bæði lið hafa spilað átta leiki í úrvalsdeildinni.

Næsti leikur Fylkismanna verður gegn Hamri þann 1. desember þar sem liðin mætast í Hveragerði. Afturelding mætir Þrótti Vogum einnig þann 1. desember og leika liðin að Varmá.

Úrvalsdeild kvenna

Álftanes – Þróttur Fjarðabyggð

Eini leikur dagsins í kvennadeildinni var viðureign Álftnesinga gegn Þrótti Fjarðabyggð. Þessi lið mættust einnig í gær en þar vann Álftanes sannfærandi 3-0 sigur á heimavelli. Miðað við það hvernig leikurinn í dag byrjaði virtist einnig stefna í sigur Álftaness í dag en liðið vann fyrstu tvær hrinurnar nokkuð sannfærandi, 25-18 og 25-20. Þróttur gerði betur í þriðju hrinunni og náði í 20-25 sigur sem hélt þeim á lífi í leiknum.

Fjórða hrinan var hnífjöfn en Þróttur reyndist sterkari á lokakaflanum. Gestirnir unnu 21-25 og fór leikurinn alla leið í oddahrinu. Þar leiddi Þróttur allt frá upphafi og unnu 11-15 sigur. Þróttur vann leikinn þar með 2-3 og eru liðin nú jöfn að stigum í 4.-5. sæti, bæði með sex stig eftir átta leiki.

Næstu leikir liðanna eru strax í næstu viku en á miðvikudag, 24. nóvember, mætir Þróttur Fjarðabyggð liði Völsungs á heimavelli. Álftanes mætir Þrótti Reykjavík á útivelli þann 28. nóvember.